Innlent

Loksins eitthvað að gerast á Laugavegi 74

Nýja húsið verður nákvæmlega eins og það gamla séð frá Laugaveginum.
Nýja húsið verður nákvæmlega eins og það gamla séð frá Laugaveginum.

Húsgrunnurinn við Laugaveg 74 er einn af þeim reitum sem stungið hafa í augun síðastliðin misseri í miðbænum. Húsið sem þar stóð var flutt í burtu síðastliðið sumar en afgreiðsla málsins hefur tafist í borgarkerfinu í einhverntíma af ýmsum orsökum og hafa nágrannar margoft kvartað yfir stöðunni.

Nú hillir undir breytingar því eigendur lóðarinnar munu hefja framkvæmdir á morgun. Þar verður reist um 1100 fermetra nýbygging en framhliðin verður nákvæm eftirmynd hússins sem þar stóð áður.

„Staðan er sú að framkvæmdir við nýbyggingu að Laugavegi 74 eru að hefjast," segir Arnór H. Arnórsson, einn eigenda Laugavegs 74 ehf. í samtali við Vísi. Endanlegar teikningar voru samþykktar í desember og síðan þá hafa menn beðið eftir skaplegu veðri til að hefja framkvæmdir.

Húsið er teiknað af Orra Árnasyni hjá Zeppilin arkitektum. Húsið verður steinsteypt. Á jarðhæð verður verslunar- og þjónusturými um 400 fm brúttó. Kjallari verður undir hluta hússins. Á annarri og þriðju hæð verða 6 glæsilegar íbúðir með stórum suðurveröndum.

„Við teljum að þetta verkefni sé gott dæmi um hvernig hægt er að leysa hönnun húsa á viðkvæmum stöðum í miðborginni, og halda skilmála samþykkts deiliskipulags hvað varðar óbreytta götumynd," segir Arnór og bendir á að rýnihópur á vegum Reykjavíkurborgar hafi fjallað um málið og verið mjög ánægður með hvernig til tókst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×