Innlent

Vilja vefmyndavélar á 150 staði til að kynna landið

Árni Johnsen er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Árni Johnsen er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. MYND/Vilhelm

Fjórtán þingmenn á Alþingi hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem skorað er á menntamálaráðherra að koma á fót Vefmyndasafni Íslands með því að koma upp nettengdum myndavélum á allt að 150 stöðum á Íslandi, fegurstu og sérkennilegustu stöðum landsins.

Slíkt nettengt safn yrði það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og mundi skapa óþrjótandi möguleika á landkynningu í þágu ferðaþjónustu, sögu, menningar og atvinnulífs. Þannig væri hægt að upplifa Ísland á líðandi stundu hvaðan sem er úr heiminum og kitla taugar til frekari kynna eins og segir í tillögunni.

Í greinargerð með tillögunni segir að á hverri vefstöð gætu verið 2-3 linsur og menn gætu valið sjónarhornið í tölvunni. „Gullfoss, Þingvellir, Geysir, Lónsöræfi, Landmannalaugar, Eldey, Bláa lónið, Vatnajökull, Þjórsá, Þórsmörk, Akureyri, Vestmannaeyjar, Stykkishólmur, Árnastofnun, fiskvinnsluhús, bryggjustemning, hvalaskoðun, Skógafoss. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um netstöðvar í netmyndasafni Íslands, andliti Íslands," segir í greinargerðinni.

Þá segja flutningsmenn tillögunnar að auðvelt sé að virkja vefmyndavélar með sólarrafhlöðum til nokkurra ára en reikna megi með að hver stöð myndi kosta að meðaltali um eina og hálfa milljón króna. Miðað við þetta kostar hugmyndin 225 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×