Viðskipti innlent

FL Group svarar Vilhjálmi

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason MYND/Rósa

Vilhjálmur Bjarnason hluthafi í FL Group hefur fengið svar frá stjórn félagsins við 8 spurningum sem hann lagði fram á aðalfundi félagsins fyrir skömmu. Hér að neðan má sjá spurningar Vilhjálms og svörin.



1. Hver mikið tapaði FL Group á eftirtöldum eignum:

a. AMR Corporation / American Airlines

b. FInnair Oyj

c. Royal Unibrew A/S

d. Bang & Olufsen A/S

e Commerzbank AG

f. Aktiv Kapital ASA

Svar:

Alls nam bókfæart tap FL Group af ofangreindum félögum á árinu 2007 43.780.948.371 kr. FL Group hefur á síðastliðnum mánuðum selt stærstan hluta eignarhluta sinna í ofangreindum félögum. Ef ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða næmi tap félagsins um það bil 45 milljörðum króna til viðbótar auk vaxtakostnaðar.

2. Hvernig var afkoma óskráðra félaga í eigu FL Group og teljast hlutdeildarfélög?

a. Refresco Holdin B.V

b. Eikarhald ehf.

c. Geysir Green Energy ehf.

d. Northern Travel Holdin hf. (Sterling & Iceland Express) Hvert var kaupverð Sterling og Iceland Express?, Hvert er bókfært verð félagsins hjá FL Group í dag?

e. Highland Group Holding Ltd.

Svar:

Verðmæti tilgreindra félaga í bókum FL Group er fært í samræmi við raunverðmæti þeirra (e. fair value) á grundvelli alþjóðlegra reikniskilastaðla og vísast þar um til skýringar 21 í ársreikningi félagsins. Afkoma framangreindra félaga er ekki fræð samkvæmt hlutdeildaraðferð. Hækkun á raunverðmæti eignarhluta í þessum félögum á síðasta ári að undanskildu Geysi Green Energy nam alls 1,4 milljörðum króna, auk 2,9 milljarða króna vegna Geysis Green Energy sem þegar hafa verið innleystir.

Tilkynnt var opinberlega þann 26.desember 2006 að Northern Travel Holding hefði keypt Sterling á 20 milljarða króna. FL Group getur ekki gefið upp kaupverð Northern Travel Holding á Iceland Express. Með því væri brotinn trúnaður við hluthafa og samningsaðila þess félags. Bókfært verð 34% hlutar FL Group í Northern Travel Holding og hluthafaláns til félagsins um síðustu áramót var u.þ.b. 15,3 milljarðar króna.

3. Hve mikið greiddi FL Group í kostnað vegna athugunar á kaupum á Inspired Gaming Group?

Svar:

Beinn útlagður kostnaður við fyrirhugaða yfirtöku á Inspired Gaming Group á síðasta ári var 791.736.000 kr eða um 1,6% af 50 milljarða fyrirhuguðu kaupverði hlutarins.

4. Er það rétt að Sigurður Helgason hafi fengið 3000 dollara á dag frá FL Group í dagpeninga þegar hann fór á stjórnarfundi hjá Finnair?

Svar:

Eins og fram kom á aðalfundi félagsins hefur félagið ekki greint frá kjörum einstakra starfsmanna eða þjónustuaðila. FL Group er bundið trúnaði gagnvart Sigurði Helgasyni auk þess sem upplýsingar þessar skipta ekki máli varðandi mat á ársreikningi félagsins. Stjórn FL Group getur þó staðfest að FL Group greiddi kostnað vegna ferða Sigurðar Helgasonar á stjórnarfundi hjá Finnair.

5. Hve há fjárhæð var greidd Jóni Þór Sigurðssyni eða fyrirtæki á hans vegum og fyrir hvaða þjónustu?

Svar:

Eins og fram kom á aðalfundi félagsins hefur félagið ekki greint frá kjörum einstakra starfsmanna eða þjónustuaðila. FL Group er bundið trúnaði gagnvar Jóni Þór Sigurðssyni og fyrirtæki hans auk þess sem upplýsingar þessar skipta ekki máli varðandi mat á ársreikningi félagsins. Stjórn FL Group getur þó staðfest að fyrirtæki í eigu Jóns Þórs Sigurðssonar fékk greiðslur vegna þjónustu sem veitt var af starfsmönnum þess. Um var að ræða akstur, viðvik og margvíslega aðra þjónustu fyrir félagið, meðal annars í tengslum við flutninga á nýjar skrifstofur o.fl.

6. Hvað heitir félag í eigu Hannesar Smárasonar, sem fékk greiðslur frá FL Group fyrir veitta þjónustu?

a. Hversu há var sú upphæð?

b. Fyrir hvaða þjónustu fékk félagið greiðslur?

Svar:

Þessi einstaki kostnaðarliður skiptir ekki máli varðandi mat á ársreikningi félagsins. Stjórn félagsins getur þó upplýst að um er að ræða greiðslur vegna afnota FL Group af flugvél í eigu Awair Ltd. Sem óbeint er í eigu Hannesar Smárasonar.

7. Hversu há var skuld stjórnarmannsins Þórsteins M. Jónssonar og Materia Invest við FL Group um áramót?

Svar:

Skuld Materia Invest ehf. Við FL Group í árslok 2007 nam 73 milljónum króna eins og fram kom á aðalfundi félagsins og var skuldin greidd í janúar 2008. Þorsteinn M. Jónsson, sem á þriðjungshlut í Materia Invest ehf., var skuldlaus við FL Group hf. um áramót.

8. Hver var kostnaður vegna flugferða starfsmanna og stjórnarmanna FL Group á árinu?

Svar:

Þessi kostnaðarliður skiptir ekki máli varðandi mat á ársreikningi félagsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×