Innlent

Kröfu RÚV í launaleyndarmálinu hafnað

Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri. MYND/GVA

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafnaði í dag kröfu Ríkisútvarpsins þess efnis að gildistöku úrskurðar nefndarinnar frá 11. mars síðastliðnum yrði frestað. Þar var úrskurðað að RÚV ætti að veita Vísi aðgang að ráðningarsamningum Þórhalls Gunnarssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur dagskrárstjóra.

Ritstjóri Vísis, Óskar Hrafn Þorvaldsson, fór fram á það við RÚV að stofnunin veitti honum aðgang að téðum upplýsingum og var þeirri beiðni synjað. Í framhaldi af því kærði ritstjórinn ákvörðun RÚV á grundvelli upplýsingalaga.

RÚV krafðist þess að réttaráhrifum yrði frestað í málinu vegna þess að afar mikilvægir hagsmunir væru í húfi og yrði úrskurðinum framfylgt gæti það skaðað verulega samkeppnis- og réttarstöðu Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisaðilum sínum.

Ritstjóri Vísis krafðist þess hins vegar að beiðni Ríkisútvarpsins um frestun réttaráhrifa yrði synjað.

Úrskurðarnefndin tók undir með Vísi og sagði í úrskurði sínum í dag að þrátt fyrir að heimild sé í upplýsingalögum til þess að fresta réttaráhrifum þá eigi það ekki við í þessu tilviki og var kröfunni því hafnað.

Ekki náðist í æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×