Innlent

Aftakaveður í Vestmannaeyjum

Aftakaveður hefur verið í Vestmannaeyjum í morgun og er ófært innanbæjar. Í fyrsta sinn í tæpan áratug falla niður messur í Landakirkju vegna fannfergis og skafhríðar.

Gísli Óskarsson fréttaritari Stöðvar tvö í Eyjum kvaðst nú á tíunda tímanum aldrei hafa séð aðra eins stórhríð á staðnum og hefði hann þó búið alla sína tíð þar. Hann sæi vart í næsta hús.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Vestmannaeyjum er ekkert ferðaveður. Mikið annríki hefur verið lögreglunni á staðnum við að hjálpa fólki sem þarf nauðsynlega að komast leiða sinna.

Gísli giskar á að um 70 sentímetra djúpur jafnfallinn snjór hafi fallið í nótt í bænum. Hann segir snjórinn enn fjúka í enn dýpri skafla. Tveggja metra hátt tré í garði Gísla sé nánast á kafi, rétt sjáist í efstu greinarnar.

Telur Gísli að þetta sé mesta fannfergi sem sést hafi í Vestmannaeyjum síðan vorið 1968 en í maímánuði það ár var álíka mikill snjór og nú.

Samkvæmt Veðurstofunni er suðaustan stormur, um 30 metrar á sekúndu, nú í Eyjum og snjókoma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×