Innlent

Samningar í höfn í Karphúsinu

Þeir gátu leyft sér að brosa Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, þegar þeir skrifuðu undir samninga í kvöld. Að baki þeim stendur Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari.
Þeir gátu leyft sér að brosa Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, þegar þeir skrifuðu undir samninga í kvöld. Að baki þeim stendur Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari. MYND/Vilhelm

Skrifað var undir kjarasamninga á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins nú á níunda tímanum í Karphúsinu eftir langan dag. Samningarnir gilda frá 1. febrúar síðastliðnum til 30. nóvember 2010.

Samningsaðilar höfðu komist að samkomulagi í gær en eftir var pappírsvinna og þá var einnig beðið eftir útspili ríkisstjórnnarinnar. Það kom í dag og felur meðal annars í sér hækkun persónuafsláttar um sjö þúsund krónur á næstu þremur árum umfram almenna verðuppfærslu, hækkun á skerðingarmörkum barnabóta og lækkun á tekjuskatti fyrirtækja um þrjú prósent, í 15 prósent.

Aðilar vinnumarkaðarins höfðu lýst því yfir að framlag ríkisstjórnarinnar væri fullnægjandi til þess að skrifa undir samninga og það gerðu þeir því nú í kvöld.

Fram kemur á heimasíðu Starfsgreinasambandsins, sem á aðild að kjarasamningunum, að kjör þeirra sem lægst hafa launin og kaupmáttur þeirra sem setið hafa eftir í launaþróuninni hækka umtalsvert meira en annarra.

Samið er til eins árs með möguleika á framlengingu í tvö ár ef efnahagslegar forsendur standast, m.ö.o. að aðrir, þar með talin stjórnvöld, axli einnig ábyrgð í efnahagslífinu þannig að verðbólga og vaxtabyrði lækki. Þessi atrið geti tryggt kaupmáttaraukningu á samningstímabilinu.

Þegar litið er á launahækkanirnar sjálfar hækka launataxtar frá og með 1. febrúar um 18 þúsund krónur, um 13.500 krónur árið 2009 og 6.500 krónur árið 2010. Í samningum er fjallað um fyrstu skref að nýju kerfi veikinda-, slysa- og örorkuréttinda á almennum markaði en grunnur er nú lagður að nýjum endurhæfingarsjóði aðila vinnumarkaðarins.

,,Veruleg hækkun bóta slysatrygginga launafólks var markmið sem náðist í kjarasamningnum. Dánarbætur til eftirlifandi maka hækka um 31,4% og til barna mun meira. Bætur vegna varanlegrar örorku hækka um 71,2% og dagpeningar vegna tímabundinnar örorku um 65%,"segir á vef SGS.

Nánari upplýsingar um samning hvers landssambands er að finna á heimasíðum þeirra. Starfsgreinasambandið, Landssamband íslenskra verslunarmanna, Samiðn, Rafiðnaðarsamband Íslands og einnig á síðu VR.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×