Innlent

Guðlaugur Þór styður Vilhjálm sem borgarfulltrúa

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra styður Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og þvertekur fyrir að vera sjálfur á leið í borgarmálin. Tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sem fréttastofa náði tali af í dag vildu ekki lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við Vilhjálm, en hinir fjórir hafa ekki látið ná í sig í dag.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur í allan dag reynt að ná sambandi við borgarfulltrúana sex sem sitja með Vilhjálmi í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna í þeim tilgangi að spyrja þá hvort þeir treystu Vilhjálmi til að gegna embætti borgarstjóra eða styddu hann til þess.

Aðeins náðist í tvo þeirra, Júlíus Vífil Ingvason og Jórunni Frímannsdóttur. Hvorugt þeirra vildi svara spurningum fréttastofu á afdráttarlausan hátt. Jórunn sagðist ekki geta tekið afstöðu til þess hvort hún styðji Vilhjálm sem borgarstjóra en til þess að svo gæti orðið þyrfti hann að njóta trausts borgarfulltrúa og almennings.

Júlíus Vífill sagði hins vegar að Vilhjálmur hefði óskað eftir andrými til að hugsa stöðu sína og að hann styddi hann í því. Hann sagðist eiga von á því að Vilhjálmur myndi leita eftir samráði og samvinnu við borgarfulltrúa í sinni niðurstöðu. Aðspurður í annað sinn hvort hann treysti Vilhjálmi sagðist hann ekki geta svarað því með já-i eða nei-i.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra var hins vegar afdráttarlaus í sinni afstöðu og sagðist styðja Vilhjálm. Hann sagði að eðlilega vildi Vilhjálmur skoða sín mál og ef hann þekkti hann rétt þá muni hann hugsa það út frá hagsmunum Reykvíkinga. Guðlaugur sagðist styðja Vilhjálm ef hann tæki þá ákvörðun að setjast í borgarstjórastólinn. ,,Hann stóð sig mjög vel sem borgarstjóri," sagði Guðlaugur.

Aðspurður hvort eitthvað væri hæft í þeim orðrómi að hann sjálfur sé borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna neitaði Guðlaugur því enda væri eðlilegast ef menn færu að leita að nýjum borgarstjóra að hann kæmi úr röðum borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×