Innlent

Mikil óánægja með stjórnendur Sláturfélagsins

Andri Ólafsson skrifar
Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands.
Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands. MYND/AFP

Mikil óánægja er á meðal margra starfsmanna Sláturfélags Suðurlands en á síðustu dögum hafa sex starfsmenn sölu og markaðsdeildar, þar af þrír stjórnendur, sagt upp störfum hjá fyrirtækinu.

Þrír af þessum sex sögðu upp fyrr í dag. Heimildarmenn Vísis í fyrirtækinu segja að enn fleiri séu að íhuga stöðu sína og muni segja upp störfum á næstu dögum.

Forstjóri SS, Steinþór Skúlason, hefur boðað til starfsmannafundar vegna málsins klukkan 16 á morgun.

Samkvæmt heimildum Vísis komu uppsagnirnar í kjölfarið á langvarandi óánægju margra starfsmanna með stjórnunarstíl og aðferðir Steinþórs forstjóra SS. Sem dæmi um það má nefna afar slæma útkomu SS úr nýlegri könnun VR á viðhorfum starfsmanna um 130 fyrirtækja til stjórnenda sinna.

Heimildarmenn Vísis nefna helst forneskjulegan stjórnunarstíl, stöðuga afskiptasemi og stefnuleysi í mannauðsmálum.

Einn óánægður starfsmaður SS sagði í samtali við Vísi í dag að litið væri á starfsfólk fyrirtækisins sem kostnað og tölur en ekki manneskjur.

Steinþóri Skúlasyni forstjóra var ekki kunnugt um óánægju á meðal starfsfólks SS þegar Vísir náði tali af honum í dag. Aðspurður um uppsagnir starfsfólks undanfarna daga svaraði Steinþór að tvær þeirra ættu sér eðlilegar skýringar. Hann sagðist hins vegar ekki hafa heyrt af neinum uppsögnum í dag. Þegar fréttamaður Vísis tjáði honum að þrír starfsmenn hefðu skilað inn uppsögnum í dag svaraði Steinþór: "Þá veist þú meira en ég"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×