Erlent

Skortur á heimilislæknum hrjáir Dani

Yfir 100.000 Danir hafa nú ekki aðgang að heimilislækni í heimabæ eða borg sinni. Nær 70 læknastofur í landinu standa nú auðar sökum skorts á heimilslæknum.

Danskir fjölmiðlar sem hafa fjallað um þetta vandamál segja að neyðarástand sé að skapast á sumum stöðum í landinu sökum læknaskortsins, einkum meðal eldri borgara og þeirra sem þjást af langvinnum sjúkdómum.

Læknastúdentar hafa gegnum síðustu ár ekki haft mikinn áhuga á því að leggja stund á heimilslækningar. það hefur meðal annars valdið því að meðalaldur heimilislækna í Danmörku hækkar stöðugt og er nú í kringum 53 ár. Alls eru nú rúmlega 3.700 heimilislæknar í Danmörku og eru um 900 þeirra á sjötugsaldrinum.

Bærinn Durup á Jótlandi er dæmigerður fyrir vandamálið. Þar lést læknir bæjarins nýlega og nú þurfa íbúarnir að keyra 20 kílómetra til sjúkrahússins í Skive til að fá læknisaðstoð. Víða í sjúkrahúsum á landsbyggðinni hefur verið komið upp neyðarstofum til að annast þá sjúklinga sem eru án heimilislæknis.

Aðgerðir til að snúa þessari þróun við eru nú ræddar innan danska heilbrigðiskerfisins. Ætlunin er meðal annars að gera það meira aðlaðandi fyrir lækna að setjast að á landsbyggðinni með því að byggja stærri læknastofur og veita styrki til aukins starfsmannahalds á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×