Innlent

Mega ekki upplýsa um dvalarstað barnaníðings

Ágúst Magnússon
Ágúst Magnússon

Ágúst Magnússon, dæmdur barnaníðingur, losnaði af Litla-Hrauni á föstudaginn. Ágúst fékk svokallað reynslulausn en þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Samkvæmt heimildum Vísis eru það félagsþjónustan í Reykjavík í samráði við fangelsismálastofnun sem eiga að útvega Ágústi húsnæði en hvorug þessara stofnana mega tjá sig um mál Ágústar.

Árið 2004 var Ágúst dæmdur fyrir að níðast á sex drengjum og hóf í kjölfarið afplánun á Litla Hrauni. Hann fékk reynslulausn í janúar á síðasta ári á áfangaheimilinu Vernd. Meðan hann var þar gekk hann í gildru fréttaskýringarþáttarins Kompás. Í gegnum internetið hugðist hann hitta þrettán ára stelpu í íbúð í Vesturbæ. Þar biðu hans hinsvegar forsvarsmenn Kompás.

Í kjölfarið tók Vernd þá ákvörðun að vista ekki kynferðisafbrotamenn. Ágúst fær því ekki þar inn nú en samkvæmt upplýsingum Vísis er það nú á könnu Fangelsismálastofnunar og Félagasþjónustunnar í Reykjavík að aðstoða hann um húsnæði.

Ágúst þarf að sæta vissum skilyrðum á reynslu sinni en eins og Vísir hefur áður greint frá þarf hann að tilkynna sig reglulega og má ekki fara á staði þar sem börn stunda tómstundir.

Í ljósi þess að Ágúst er laus af Litla Hrauni hafa þónokkrir haft samband við Vísi og vilja vita hvar hann sé niðurkominn.

Við eftirgrennslan í því máli hefur lítið áorkast. Hvorki fangelsismálastofnun né félagsþjónustan í Reykjavík vilja gefa nokkuð upp í tengslum við Ágúst Magnússon, þar sem þeim er óheimilt að tjá sig nokkuð um mál ákveðinna einstaklinga.

Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sem fer með mál félagsþjónustunnar, eru ekki neinar sérstakar íbúðir til fyrir fanga. Hinsvegar er reynt að koma til móts við einstaklinga sem þessa með t.d húsaleigubótum fyrir íbúðir á almennum leigumarkaði.

Ef þú hefur einhverja hugmynd um hvar Ágúst Magnússon býr, sendu þá póst á netfangið ritstjorn@visir.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×