Borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon, fer ekki á reglulegan samráðsfund borgarstjóra Norðurlandanna, sem hittast í Stokkhólmi á morgun. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, fer í hans stað ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur forseta borgarstjórnar og Gunnari Eydal skrifstofustjóra borgarinnar.
Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er þetta í fyrsta sinn eins langt og menn muna að borgarstjórinn í Reykjavík mæti ekki til fundar borgarstjóra Norðurlandanna. En fundir borgarstjóranna eru haldnir til skiptis í höfuðborgum landanna. Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi sagði í samtali við fréttastofuna í dag að Ólafur hafi ekki talið sig geta sótt fundinn vegna anna, enda ný tekinn við embættinu. Hvorki náðist í Vilhjálm né Ólaf vegna þess máls í dag.
Ólafur F. fer ekki á reglulegan samráðsfund borgarstjóra Norðurlandanna
