Lífið

Sakar borgarleikhússtjóra um ritskoðunartilburði

Andri Ólafsson skrifar
Jón Viðar Jónsson
Jón Viðar Jónsson

„Ég hélt satt að segja að íslenskir leikhússtjórar væru vaxnir upp úr svona ritskoðunartilburðum, en svo virðist ekki vera," segir Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi DV.

Guðjón Pedersen borgarleikhússtjóri svipti hann í dag frumsýningarmiðum sínum í kjölfarið á dómi Jóns Viðars um leikritin Endstation Amerika og Ræðismannsskrifstofan. Í dómi sínu um leikritin skrifaði Jón Viðar að nálykt legði frá Borgarleikhúsinu.

„Jón Viðar fór yfir strikið í þeim dómi og sýndi áhorfendum dónaskap með því að segja að nálykt væri af Borgarleikhúsinu á sama tíma og metfjöldi sækir leikhúsið," segir Guðjón. Hann bætir því við að Jón Viðar sé velkomið að koma á sýningar í Borgarleikhúsinu og að hann geti skrifað það sem hann vilji. En ákvörðunin um að taka hann af boðslista á frumsýningar stendur.

Jón Viðar kippir sér ekki upp við þessa ákvörðun enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem leikhússtjóri setur hann út af sakramentinu. Hann ætlar að sjá Jesus Christ Superstar, sem sýnt er í Borgarleikhúsinu, á morgun og mun í kjölfarið skrifa dóm um verkið.

En verður ekki erfitt að gæta hlutleysis eftir það sem á undan er gengið? „Á meðan ég er heiðarlegur og samkvæmur sjálfum mér hef ég ekkert að óttast," segir Jón Viðar Jónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×