Lífið

Völva Vikunnar: Ný ríkisstjórn mynduð á næsta ári

Völva Vikunnar segir í nýrri spá fyrir árið 2008 að tvö eldgos verði á árinu, að ný ríkisstjórn verði mynduð og að Barack Obama verði kjörinn forseti Bandaríkjanna.

"...þá sýnist mér eins og það sé á tveimur stöðum sem jörð skelfur og myndast gos. Mér finnst eins og seinna gosið sé nær byggð," segir Völvan í nýrri spá sem birtist eins og venjulega í Vikunni í árslok.

Völvan segir landsmönnum einnig að stjórnmálaveturinn verði heitur. "Það kæmi mér alls ekki á óvart þótt allt springi í loft upp hjá ríkisstjórninni á árinu og boða verði til nýrra kosninga. Mér sýnis sambræðingur vinstri aflanna verði fyrir valinu," segir Völvan.

Völvan er ekki bjartsýn þegar kemur að efnahagsmálum. Hún segir fjármálakreppu framundan og spáir miklum sveiflum á gengi krónunnar. Völvan segir að óráðlegt sé að taka upp evru en leggur frekar til að á Íslandi verði tekin upp sænsk króna eða kanadískur dollar.

Þá spáir Völvan því að eitt stórt svikamál í fjármálaheiminum komi upp á yfirborðið á árinu og að tvær þekktar persónur muna falla frá á árinu, önnur mun þekktari en hin.

Að lokum má nefna að Völvan spáir því að Ólafur Ragnar muni hætta sem forseti á næsta ári, að Magnús Geir verði Borgarleikhússtjóri og að Manchester United vinni ensku deildina.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×