Innlent

Allir sem vilja komast í skjól á Vogi yfir jólin

Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi segir að allir sem vilja, eða þurfa, komist í skjól á Vogi yfir jólin. "Við höfum opið fyrir þá sem vilja koma í meðferð í dag og fram að hádegi á morgun, aðfangadag," segir Þórarinn í samtali við Vísi.

Þórarinn segir að á jólum séu yfirleitt á milli 50-60 í meðferð á Vogi. "Það er lítið af yngra fólki og konum hjá okkur yfir hátíðarnar," segir Þórarinn. "Við verðum með hefðbundið jólahald, tónlist, góðan mat og prestur kemur til að halda guðsþjónustu fyrir sjúklingana."

Fram kemur í máli Þórarins að meðferð um jólin á Vogi hafi gefið góða raun fyrir marga sem þar hafa dvalið á þeim tíma. "Það eru margir sem telja að meðferð um jól skili betri árangri enda er fólk þá mikið að hugsa um fjölskyldu sína," segir Þórarinn.

Þórarinn segir að þótt ætíð sé biðlisti til staðar eftir plássi á Vogi sé aðalatriðið hér að engum er vísað frá í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×