Innlent

Margir í Samfylkingu efast um virkjanir í Þjórsá

Formaður umhverfisnefndar Alþingis segir fagnaðarefni að framsalssamningar ráðherra síðustu ríkisstjórnar á vatnsréttindum til Landsvirkjunar komi til kasta Alþingis. Ólýðræðislegt hefði verið ef Framsókn hefði komist upp með slík vinnubrögð bakdyramegin, nokkrum dögum fyrir kosningar. Margir innan Samfylkingar hafi efasemdir um virkjanaáform Landsvirkjunar.

Virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í Þjórsá er í óvissu eftir að Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að umdeilt framsal ráðherra síðustu ríkisstjórnar á vatnsréttindum til Landsvirkjunar, nokkrum dögum fyrir kosningar, hefði þurft samþykki Alþingis. Vinstri grænir telja að þeir samningar sem Landsvirkjun hafi gert í krafti framsalsins sé að engu orðnir. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar og formaður Umhverfisnefndar Alþingis segist fagna áliti Ríkisendurskoðunar.

Mikilvægt sé að Landsvirkjun nái sátt við heimamenn og frjálsum samningum við landeigendur. Nú gefist Alþingi kostur á að endurmeta virkjanaáform Landsvirkjunar meðal annars með tilliti til umhverfisáhrifa.

Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra um helgina vegna málsins. Málið verður tekið fyrir í utandagskrárumræðu á Alþingi á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×