Erlent

Mæðurnar berja börnin

Óli Tynes skrifar

Umfangsmikil norsk rannsókn sýnir að mæður beita börn sín mun oftar líkamlegum refsingum en feðurnir.

Samkvæmt könnuninni hafa 20 prósent barna upplifað að mæðurnar leggi hendur á þau, en 14 prósent hafa upplifað barsmíðar af hálfu föður.

Það var stofnunin NOVA sem gerði rannsóknina. NOVA er rannsóknarstofa í félagsvísindum sem meðal annars rannsakar fjölskyldur, börn og uppeldisskilyrði.

Danska Nyhedsavisen segir frá þessari rannsókn og lítur til þess hvernig málum er háttað í Danmörku.

Þar hefur verið bannað að berja börn í tíu ár. Á tíu ára afmæli bannsins var gerð könnun á því hvernig til hefði tekist. Niðurstaðan var sú að börn væru barin í stórum stíl.

Fjögur af hverjum tíu börnum höfðu orðið fyrir ofbeldi á heimilinu. Í Danmörku eru hinsvegar ekki til tölur um það hvort foreldrana leggur oftar hendur á börn sín.

Fjölskyldusálfræðingurinn Ulla Dyrlöv segir við Nyhedsavisen að hún sé ekkert hissa á þeirri niðurstöðu að mæður berji börn sín oftar en feðurnir.

Mæðurnar séu meira með börnin, og auk þess hafi einstæðum mæðrum fjölgað stórlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×