Innlent

Gæti hagnast um milljarða á fasteignakaupum á Vellinum

Fyrirtæki í eigu bróður fjármálaráðherra gæti hagnast um milljarða á umdeildum fasteignakaupum á Keflavíkurflugvelli. Markaðsvirði eignanna er meira en tvöfalt hærra en fyrirtækið Háskólavellir greiddi fyrir þær í október. Hæstaréttarlögmaður í stjórnarandstöðu segir lög hafa verið brotin með sölunni.

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var stofnað til að fara með umsýslu eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli. Í október síðast liðnum seldi félagið um 80% eigna sinna til Háskólavalla ehf. Fyrir eignirnar borgaði Háskólavellir 14 milljarða króna. Markaðsvirði eignanna miðað við fermetraverð í Reykjanesbæ er hins vegar 29 og hálfur milljarður. Háskólavellir eru skuldbundnir til að eiga eignirnar til ársins 2011 en þá má fyrirtækið selja þær á frjálsum markaði.

Að Háskólavöllum standa fimm fyrirtæki, Glitnir, Fasteignafélagið Þrek, Sparisjóður Keflavíkur, Klasi hf og Teigur hf.

Klasi hf er í eigu Þorgils Óttars Matthiesen en hann er sem kunnugt er bróðir Árna Matthiesen, fjármálaráðherra. Þá vekur athygli að stjórnarformaður Þróunarfélagsins er Árni Sigfússon en hann situr í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ásamt Böðvari Jónssyni sem er aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Sala Þróunarfélagsins til Háskólavalla var gagnrýnd á Alþingi í dag. Atli Gíslason, þingmaður VG, sagði augljóst að ekki hafi verið farið að lögum um innkaup ríkiseigna og að einnig hefðu lög um Evrópska Efnahagssvæðið verið brotin þar sem kveðið er á um jafnan rétt allra til kaupa á eignum ríkisins.Fjármálaráðherra segir hins vegar að engin lög hafi verið brotin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×