Innlent

Segir leitun að spilltari stjórnmálamanni

Sverrir Hermannsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir leitun að spilltari stjórnmálamanni en Finni Ingólfssyni fyrrverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra, en Finnur gagnrýndi Sverri harkalega í þættinum Mannamál á Stöð 2 í gær.

Í þættinum fór Finnur Ingólfsson meðal annars yfir einkavæðingu viðskiptabankanna og aðdraganda þess máls sem varð til þess að Sverrir Hermannsson þurfti að víkja úr bankastjórastól Landsbankans. Vísaði Finnur í greinargerð ríkisendurskoðanda um Landsbankann þar sem talað var um að þar þrifist ómæld spilling og sukk.

Þá vísaði Finnur því á bug að einkavæðing bankanna hafi verið ákveðin á flokkspólitískum forsendum. Sagði hann að þau tilboð sem hafi verið samþykkt hafi einfaldlega verið þau bestu og sjálfur hafi hann ekki hagnast um krónu.

Ennfremur sagði Finnur það ekki rétt að Landsbankinn hafi tapað á sölu á hlut sínum í Vátryggingafélaginu. Þvert á móti hafi bankinn grætt allt að tvo milljarða á sölunni þar sem hluturinn hafi verið keyptur yfir markaðsverði.

Sverrir Hermannsson segir hins vegar rangt að bankinn hafi grætt á sölunni og segir hlutur Landsbankans í Vátryggingafélaginu hafa verið seldur langt undir markaðsvirði og líkir málinu við hyldjúpan sóðaskap. Þá vísar Sverrir því ennfremur á bug að hann hafi orðið uppvís að spillingu á meðan hann sat í bankastjórastól. Hann segir Finn hafa bolað sér í burtu þar sem hann var á móti einkavæðingaáformum Finns. Sakar hann Finn sjálfan um spillingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×