Innlent

Lögreglumenn vilja YouTube vopn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumenn vilja taka í notkun svokallaðar „taser" byssur
Lögreglumenn vilja taka í notkun svokallaðar „taser" byssur

„Það er vilji Landssambands lögreglumanna að skoða möguleika á því að taka upp þessar taser byssur," segir Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landssambandsins, um svokallaðar taser byssur. Hann segir að setja þyrfti nákvæmar reglur um meðferð slíkra tækju yrðu þau tekin til notkunar.

Eitt vinsælasta myndskeiðið á YouTube sýnir lögreglumenn á alþjóðlegum flugvelli í Vancouver beita slíku tæki gegn manni með þeim afleiðingum að hann lætur lífið. Steinar segir að sér sé kunnugt um það að menn hafi látið lífið þegar slíkum tækjum hafi verið beitt. „En þær upplýsingar sem ég hef benda til þess að það hafi verið vegna samverkandi þátta. Þeir sem létust voru í einhverju óeðlilegu ástandi," segir Steinar.

Hingað til hefur lögreglan notað valdbeitingatæki á borð við handjárn, kylfur og maze brúsa. Sérþjálfaðir lögreglumenn nota skotvopn „Almennir lögreglumenn ganga ekki með vopn og Landssamband lögreglumanna er á móti því að lögreglan vopnvæðist með byssum eða öðru slíku. Með þessu valdbeitingatæki er síður þörf fyrir skotvopn," segir Steinar og á við taser byssurnar.

Steinar bendir á að taser byssur séu mikið notaðar erlendis. „Þetta er notað vestan hafs og í Finnlandi líka. En þetta hefur ekki verið notað á Norðurlöndunum og við myndum ekki taka þessi tæki í notkun nema í samráði við kollega okkar í Danmörku, Svíþjóð og í Noregi," segir Steinar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×