Innlent

Þykja hafa sloppið ótrúlega vel í ofsahraðaslysi

Það þykir ganga kraftaverki næst að karl og kona skyldu hafa sloppið lítið meidd og ekki hafa skaðað aðra þegar bíll þeirra fór bókstaflega í tætlur á ofsahraða á Kringlumýrarbrautinni seint í gærkvöldi.

Fyrst lenti bíllinn á steinstólpum á milli akreina en við það rifnuðu flest hjólin ásamt öllum búnaði undan honum. Síðan þeyttist vélin og gírkassinn úr honum og á 200 metra kafla skildi hann eftir sig slóð af braki uns hann lenti á ljósastaur sem brotnaði niður á götuna. Við það valt bíllinn og hafnaði loks á hvolfi á öfugum vegarhelmingi.

Minnstu munaði að hann lenti fljúgandi á bíl sem kom á móti en ungri konu sem ók honum tókst með snarræði að víkja bíl sínum undan. Henni var svo brugðið að hún gat ekki ekið eftir það. Þá þeyttist brak úr bílnum, sem er stór og nýlegur BMW, á annan bíl, með þeim afleilðingum að hann varð óökufær eftir. Engin meiddist í honum.

Það tók slökkvilið, lögreglu og bílaflutningamenn rúmar tvær klukkustundir að hreinsa vettvanginn. Allt bendir til að bíllinn hafi verið á ofsahraða þegar ökumaðurinn missti stjórn á honum. Léleg dekk undir bílnum kunna að skýra það eitthvað en ökumaðurinn er líka grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og var auk þess sviptur ökuréttindum nýverið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×