Innlent

Páll Magnússon: Laun mín í takt við aðra stjórnendur

Páll Magnússon segir að laun sín séu í takt við framkvæmdastjóra í öðrum fyrirtækjum.
Páll Magnússon segir að laun sín séu í takt við framkvæmdastjóra í öðrum fyrirtækjum. Samsett mynd

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir að laun sín séu nálægt því sem gengur og gerist hjá framkvæmdastjórum í meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi.

Páll vill ekki tjá sig um það hvaða breytingum launakjör starfsmanna Ríkisútvarpsins muni taka. Hann segir að laun starfsmanna séu háð kjarasamningum sem renni út í byrjun næsta árs. Kjör þeirra haldist óbreytt þangað til að samningar losni. Hann segist ekki geta tjáð sig um það núna hvernig næstu samningar verði.

Páll segir að með breytingu á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins hafi tekist að gera reksturinn skilvirkari og þannig hægt að skapa svigrúm til að stórauka innlenda dagskrárgerð. Því hafi verið staðið við það sem hann hafi sagt á fundi menntamálanefndar þegar frumvarpið var í þinginu.

Laun Páls tvöfölduðust nærri því þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag. Hann er nú með um 1500 þúsund krónur á mánuði. Inni í laununum eru reiknuð öll hlunnindi Páls, svo sem bílahlunnindi. Páll ekur um á afar glæsilegum Audi Q7.

Starfsmenn RÚV segjast fagna launahækkun Páls og muni taka hana til viðmiðunar í næstu kjarasamningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×