Innlent

Vill markvisst átak fyrir lesblind börn

Oddný Sturludóttir ber hag lesblindra barna fyrir brjósti sér.
Oddný Sturludóttir ber hag lesblindra barna fyrir brjósti sér.
Oddný Sturludóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í menntaráði Reykjavíkurborgar, vill að að fræðsluyfirvöld í Reykjavík fari í markvisst átak til að mæta þörfum lesblindra barna í grunnskólum. Oddný flutti tillögu þessa efnis í menntaráði á mánudaginn síðasta.

Oddný segir að það sé grundvallaratriði fyrir sjálfsmynd barna að geta lesið. „Það segir sig sjálft að það hefur gríðarlega neikvæð áhrif á börn að geta ekki lært að lesa eftir hefðibundnum leiðum. Sjálfsmynd þeirra bíður hnekki og afstaða þeirra til náms verður neikvæð," segir Oddný.

Oddný segir að fjölmargir hafi þróað kennsluaðferðir til að mæta þörfum lesblindra barna. „Margar þeirra eru í boði utan grunnskólans og þurfa foreldrar að greiða fyrir það dýru verði. Eins eru sérkennarar í skólunum margir hverjir að vinna gott starf en betur má ef duga skal," segir Oddný.

Oddný líkir þessu við aðstæður fatlaðra barna „Það yrði nú sjálfsagt talið ótækt ef fötluð börn væru í stórum stíl að sækja sér þjónustu utan skólans," segir Oddný. Hún segist hafa fengið góð viðbrögð frá foreldrum og sérkennurum við tillögum sínum. Hún segist jafnframt hafa fengið góð viðbrögð við tillögunni í menntaráði og hún sé bjartsýn á að tillagan verði samþykkt af meirihlutanum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×