Innlent

Ráðist á aðstoðarlögreglustjóra í miðborginni

Jón HB. Snorrason og Hörður Jóhannesson snúa manninn niður í miðbænum í nótt.
Jón HB. Snorrason og Hörður Jóhannesson snúa manninn niður í miðbænum í nótt. MYND/Bjössi

Ölvaður maður réðst að Herði Jóhannessyni, aðstoðarlögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, á meðan hann var við eftirlit í miðbænum í nótt. Í fylgd með Herði voru þeir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, Jón HB. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn. Saman tókst þeim að snúa manninn niður.

„Aldur og reynsla Harðar og Jóns kom fram með mjög skýrum hætti og þeir gengu vasklega til verks," sagði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Vísi. „Þeim reyndist ekki erfitt að snúa manninn niður."

Ölvaður maður réðst á Hörð Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóra, þar sem hann var við eftirlit ásamt öðrum yfirmönnum lögreglunnar neðarlega á Laugaveginum í nótt. Maðurinn reyndi að hrifsa til sín lögregluhatt Harðar og gerði síðan tilraun til að hlaupa í burtu.

Að sögn Stefáns komst maðurinn hins vegar ekki langt áður en Jón HB. Snorrason og Hörður sneru manninn niður og handtóku hann. Stefán segist ekki vita afhverju maðurinn réðst að Herði með þessum hætti.„Þegar hann var búinn að róa sig niður inni í lögreglubílnum þá baðst hann afsökunar á þessu." Maðurinn getur búist við sekt upp á allt að 20 þúsund krónur fyrir athæfið.

Stefán segir yfirmenn lögreglunnar hafa verið í miðbænum í gær aðallega til að hafa eftirlit með veitingastöðum og fylgjast með hertum aðgerðum. Saman hafi þeir handtekið nokkra einstaklinga fyrir brot á lögreglusamþykkt meðal annars nokkra sem voru að brjóta flöskur. Hann er ánægður með hvernig til tókst í nótt. „Þetta er langtíma verkefni sem við erum að fást við í miðborginni. Það þurfa margir að koma að því máli til að snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað í miðborginni."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×