Erlent

Við erum komnir aftur -Vladimir Putin

Óli Tynes skrifar
Vladimir Putin.
Vladimir Putin. MYND/AP

Vladimir Putin tilkynnti í dag að Rússar hefðu sent fjórtán langdrægar sprengjuflugvélar í eftirlitsflug langt útfyrir landamæri ríkisins. Orrustuþotur og eldsneytisvélar fylgdu þeim eftir. Forsetinn sagði að ákveðið hafi verið að hefja á ný langflug sprengjuflugvéla. Þær væru komnar til þess að vera. Putin lýsti þessu yfir á blaðamannafundi í tilefni af sameiginlegum heræfingum Rússa og Kínverja.

Forsetinn sagði að ákvörðunin hefði verið tekin vegna ógnar sem Rússlandi stafaði af öðrum herveldum.

"Árið 1992 hættum við einhliða langflugi með sprengjuflugvélum okkar til fjarlægra eftirlitssvæða. Því miður fóru ekki aðrir að okkar fordæmi."

Ástæðan fyrir því að Rússar hættu þessu flugi árið 1992 var náttúrlega sú að þeir höfðu ekki efni á því. Efnahagur Rússlands er nú hinsvegar mjög að braggast og Putin hefur stóraukið fé til hermála. Hann ætlar sér að endurheimta fyrra hlutverk Rússlands sem stórveldis.

Að hefja kaldastríðsflug á nýjan leik er liður í því. Fyrir utan heraflann eiga Rússar gríðarlegar birgðir af gasi og olíu. Og hafa verið ófeimnir við að beita þeim sem vopni gegn ríkjum sem standa upp í hárinu á þeim.

Þetta hafa mörg nágrannaríki þeirra mátt reyna á eigin skinni. Og það hefur vakið ugg í Vestur-Evrópu sem verður sífellt háðari Moskvu í orkumálum.

Rússar hafa nú slegið eign sinni á Norðurpólinn og létu kafbát setja rússneska fánann niður undir ísnum þar fyrir nokkrum dögum. Þar eru taldar vera ómældar birgðir af gasi, olíu og allskonar verðmætum málmum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×