Innlent

Borga sig ekki upp á 25 árum

Tap Orkuveitu Reykjavíkur á þeim 25 árum sem fyrirtækið hefur samið um að afhenda Norðuráli 100 megavött af raforku vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík nemur um 840 milljónum að núvirði, samkvæmt forsendum sem Orkuveitan hefur upplýst um.

Í því felst að virkjanirnar yrðu niðurgreiddar fyrir utan þær 840 milljónir sem eftir standa. Líklegt er að raforkusalan borgi virkjanaframkvæmdirnar, sem kosta á milli fjórtán og fimmtán milljarða, upp á um 30 árum samkvæmt fyrrnefndum forsendum.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu á fimmtudag er verð á raforku til Norðuráls um 2,1 króna á kílóvattstund. Það staðfesti Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar. Það er verð sem tekið var mið af við samningsgerðina en raforkuverðið hangir saman við heimsmarkaðsverð á áli og gengi dollars og er því háð markaðsaðstæðum hverju sinni.

Óvissuþættir eru nokkrir en samkvæmt upplýsingum frá Önnu Skúladóttur, fjármálastjóra Orkuveitunnar, er gert ráð fyrir því að arðsemiskrafan vegna verkefnisins sé að lágmarki tíu prósent. Gert er ráð fyrir því að rekstrarkostnaður af fjárfestingu verði um 1,5 prósent en heildartekjur um 41,5 milljarður.

Arðsemiskrafan er hærra lagi sé mið tekið af algengri arðsemiskröfu í áliðnaði, samkvæmt upplýsingum frá CRU group í London, sem sérhæfir sig í rannsóknum og ráðgjöf á áliðnaðinum í heiminum.

Meðalarðsemiskrafan á alþjóðlegum markaði er tæplega átta prósent.

Fastlega má búast við því að virkjanirnar verði notaðar áfram að 25 árum liðnum og samningar um frekari orkusölu endurnýjaðir. Ekki er tekið tillit hliðaráhrifa út frá þessum forsendum en forsvarsmenn Orkuveitunnar hafa haldið því fram að með virkjunum sé hægt að tryggja ódýrt heitt vatn fyrir almenning, og með virkjunum sparist þannig umtalsverðir fjármunir. - mh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×