Stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verður væntanlega haldið áfram í dag en hlé var gert á þeim í gær. Gera má ráð fyrir að flokkarnir séu að ná saman. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins er viðbúið fundi í Valhöll klukkan 19 í kvöld og flokkstjórn Samfylkingarinnar er líka sagt að bíða átekta. Flokksformennirnir hafa rætt við þingmenn sína í morgun.
Gert er ráð fyrir því að næstu fundir verði tímasettir í hádeginu.
Þriggja og hálfs tíma fundi flokkanna lauk um fjögurleytið í gær en talsmenn beggja flokka sögðu þá að það þýddi ekki að viðræðurnar væru að sigla í strand heldur hefðu hóparnir þurft að kanna ýmis mál nánar. Að öðru leyti verjast þeir fregna af framgangi mála.
Á bloggsíðu Steingríms Sævarrs Ólafssonar, ritstjóra Íslands í dag, er sagt frá því að skeyti hafi verið sent frá Valhöll síðdegis í gær þar sem fulltrúar í flokksráði Sjálfstæðisflokksins séu beðnir um að vera viðbúnir því að fundur verði haldinn kl. 19 í kvöld. Staðfesting og dagskrá fundarins verði send út fyrir hádegi í dag.
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins markar stefnu flokksins og tekur afstöðu til annarra stjórnmálaflokka, það er hvort fara eigi í samstarf við þá.