Skoðun

Til helvítis með Palestínu!

Í ár verða 40 ár liðin síðan Ísraelsher hertók Vesturbakkann og Gaza og lagði þar með undir sig síðustu svæði Palestínu. Þótt lítill árangur hafi náðst í frelsisbaráttu Palestínumanna síðan þá hafa íbúar herteknu svæðanna þó náð þeim rétti að fá að kjósa fulltrúa sína í lýðræðislegum kosningum. Eða svo leit að minnsta kosti út fyrir, þar til íbúarnir kusu annað en ríkisstjórnir Ísraels og ýmissa Vesturlanda, þar á meðal Íslands, töldu ákjósanlegt.

Rúmt ár er nú liðið síðan Fatah missti meirihluta sinn í hnífjöfnum þingkosningunum í Palestínu. Íbúarnir völdu breytingu og Hamas-samtökin höfðu betur. Úrslitin voru ríkisstjórn Ísraels ekki að skapi og Bandaríkjastjórn hafði að engu yfirlýst markmið sitt um að styðja við lýðræði í Mið-Austurlöndum og neitaði að viðurkenna hina nýju stjórn. Skipti þar engu þótt íbúar herteknu svæðanna hafi gert Palestínu að eitt af örfáum lýðræðisríkjum Mið-Austurlanda. Lýðræðisríki segi ég – þótt staðreyndin sé sú að Palestína er ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki af Ísrael né Bandaríkjunum. Þessi ríki eru því miður ekki ein um það, því við Íslendingar erum á meðal þeirra þjóða sem ekki viðurkennir sjálfstæði Palestínu. Stefna íslenskra stjórnvalda hefur þó verið að „viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar“, eins og segir í ályktun Alþingis frá árinu 1989.

En þessi sjálfsákvörðunarréttur er greinilega vandmeðfarinn, því undanfarið höfum við tekið þátt í þeim ljóta leik að refsa Palestínumönnum fyrir að kjósa ekki „rétt“ í sínum eigin kosningum. Refsiaðgerðirnar leggjast ofan á það hrikalega ástand sem Palestínumenn búa við; hundruð þúsunda þeirra dúsa í flóttamannabúðum, fjögurra áratuga hernám í landi þeirra varir enn og innbyrðis átök hafa blossað upp. Það eykur auðvitað enn á örvæntinguna í Palestínu að lýðræðislega kjörin stjórn landsins sé sniðgengin. Nú hefur verið mynduð þjóðstjórn í Palestínu sem Hamas, Fatah og fjöldi smærri flokka á aðild að. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hefur tekið það þarfa og lýðræðislega skref að lýsa því yfir að taka eigi upp eðlileg samskipti við hana. Geir H. Haar­de forsætisráðherra sagði hins vegar í kosningaþætti á Stöð 2 að skoða verði „gaumgæfilega“ samskipti Íslendinga við heimastjórn Palestínumanna, um leið og hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann væri „ekkert sérstaklega hrifinn af Hamas-hreyfingunni“.

Er Geir að grínast? Telur hann eðlilegt að íslenska ríkisstjórnin sniðgangi lýðræðislega kjörna stjórn í Palestínu vegna þess að í henni séu flokkar sem hann er ekki hrifinn af? Vill Geir ekki bara sjálfur sjá um að raða upp ríkisstjórn Palestínu? Íslenska ríkisstjórnin á að sjá sóma sinn í því að viðurkenna lýðræðislega kjörna stjórn í Palestínu. Strax! Það að refsa Palestínumönnum og sniðganga þjóðstjórnina grefur ekki aðeins undan lýðræðisþróun í Palestínu og Mið-Austurlöndum – heldur eru mjög skýr skilaboð frá Íslandi til íbúa herteknu svæðanna, sem hafa staðið í baráttu fyrir frelsi sínu og mannréttindum í áratugi; til helvítis með Palestínu!

Höfundur situr í stjórn félagsins Ísland-Palestína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×