Innlent

Reynt að finna hentugan fundartíma fyrir kosningar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
MYND/Stefán Karlsson

Formaður sjávarútvegsnefndar, Guðjón Hjörleifsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að verið sé að vinna að því finna tíma fyrir fund í nefndinni sem Magnús Þór Hafsteinsson óskaði eftir. Magnús óskaði eftir fundinum í kjölfar umfjöllunar Kompáss á sunnudag þar sem ljóstrað var upp um kvótasvindl. Guðjón segist hins vegar vera ósáttur við vinnubrögð Magnúsar, en hann fékk fundarbeiðnina í tölvupósti tæpum klukkutíma eftir að sagt var frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að Magnús hafi óskað eftir fundinum.

Guðjón segir að tveir af nefndarmönnunum níu séu staddir erlendis, en að verið sé að reyna að finna hentugan fundartíma fyrir hina sjö fyrir kosningar. Það gæti hins vegar reynst snúið það sem menn eru dreifðir um kjördæmin í kosningabaráttunni. „Ég legg mikla áherslu á að ná aðalmönnum í nefndinni á þennan fund. Það þjónar engum tilgangi að kalla inn varamenn sem ekkert hafa starfað í nefndinni," segir Guðjón í samtali við Vísi. Guðjón tekur undir með Magnúsi að verði fundurinn haldinn á annað borð verði það að gerast fyrir kosningar því á kjördag missi þingmennirnir umboð sitt.

Guðjón segist hins vegar vera undrandi á því að greint hafi verið frá málinu í fréttum á Bylgjunni og á Vísi áður en fundarboðið barst frá Magnúsi. „Ég heyrði fyrst af þessu í hádegisfréttum í gær. Fimm mínútum síðar hringir Magnús í mig og segir frá því að hann ætli að óska eftir fundi. Það var svo ekki fyrr en klukkan kortér í eitt sem tölvupóstur berst frá Magnúsi með ósk um fund," segir Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×