Innlent

Freistingar til misnotkunar innbyggðar í kvótakerfið

Einar K Guðfinsson sjávarútvegsráðherra segir ákveðnar freistingar til misnotkunar byggðar inn kvótakerfið og taka beri allar ábendingar um svindl í kerfinu alvarlega. Magnús Þór Hafsteinsson fulltrúi Frjálslyndaflokksins í sjávarútvegsnefnd Alþingis vill að nefndin komi saman fyrir kosningar, vegna ásakana um stórfellt svindl í kvótakerfinu sem greint var frá í Kompási s.l. sunnudag.

Magnús Þór Hafsteinsson segir nauðsynlegt að sjávarútvegsnefnd komi saman af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna væntanlegrar veiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, þar sem allt bendi til tillagna um stórfelldan niðurskurð í þorsk og ýsuveiðum, sem stofnunin og sjávarútvegsráðherra þurfi að svara fyrir.

Hin ástæðan fyrir því að Magnús Þór vill fund í sjávarútvegsnefnd er frásögn fréttaskýringaþáttarins Kompáss á Stöð 2 s.l. sunnudag, þar sem greint var frá stórfelldu svindli í kvótakerfinu.

Einar K Guðfinsson sjávarútvegsráðherra segir að fréttir um stórfellt kvótasvindl slái sig illa reynist þær vera sannar, því menn eigi að fara eftir settum reglum í fiskveiðum eins og öðrum reglum í þjóðfélagninu. En það fyrirkomulag að hafa einungis úrtaksviktun á afla, geti falið í sér freistingar til misnotkunar.

Magnús Þór segir svindl í kvótakerfinu skekkja alla veiðiráðgjöf og það sé ekki einleikið hvað illa gangi að byggja upp þorskstofninn. Aðeins örfáir dagar eru til kosninga en Magnús Þór telur engu að síður mikilvægt að sjávarútvegsnefnd komi saman fyrir kosningar. Kjósendur eigi rétt á að vita stöðu mála í þessu kerfi sem stjórnvöld hafi hampað undanfarin rúman áratug.

Sjávarútvegsráðherra segist telja að í meginatriðum sé eftirlitskerfið í sjávarútvegi skilvirkt. Hins vegar gefi allar vísbendingar um svindl í kerfinu ástæðu til að skoða málin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×