Innlent

Viðurlög við umferðarlagabrotum hert

MYND/VG

Sektir verða hækkaðar og viðurlög við ítrekuðum ölvunarakstri hert samkvæmt breytingum á umferðarlögum sem ganga í gildi á morgun. Lögreglunni er meðal annars gefin heimild til að gera ökutæki upptæk í vissum tilvikum.

Samkvæmt tilkynningu frá samgönguráðuneytinu fela breytingarnar í sér hertar sektaraðgerðir vegna umferðarlagabrota. Þannig getur sá sem ekur meira en tvöfalt hraðar en hámarkshraði leyfir átt von á sviptingu ökuréttar í að minnsta kostir þrjá mánuði. Þá er í lögunum nýtt ákvæði sem segir að lögregla skuli banna byrjanda sem hefur bráðabirgðarökuskírteini að aka hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi.

Annað nýmæli laganna er að þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur, hraðakstur eða akstur án ökuréttinda er að ræða má gera það ökutæki upptækt sem nota var við brotið nema það sé í eigu annars manns. Hins vegar má lögreglan, við sömu aðstæður, gera ökutæki þess sem brotið fremur upptækt jafnvel þó það hafi ekki verið notað þegar brot var framið.

Þá eru einnig breytingar í reglugerð sem varðar gerð og búnað ökutækja sem flytja hreyfihamlaða. Ennfremur verður bílstjórum, leiðsögumönnum eða farastjórum gert að tilkynna farþegum hópbifreiða um notkun öryggisbelta á meðan ekið er. Sérstök ákvæði eru um notkun öryggis- og varnarbúnaðar fyrir börn í ökutækjum og hvaða kröfur búnaðurinn skuli uppfylla. Áhersla er lögð á að þess sé gætt að búnaðurinn hæfi börnum miðað við þyngd og stærð og sé í samræmi við gerð og búnað viðkomandi ökutækis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×