Innlent

Sakar Moggann og Ríkisútvarpið um óvönduð vinnubrögð

Kristinn H. Gunnarsson. Segir frjálslynda finna fyrir miklum meðbyr í Norðvesturkjördæmi.
Kristinn H. Gunnarsson. Segir frjálslynda finna fyrir miklum meðbyr í Norðvesturkjördæmi. MYND/VGA

Morgunblaðið og RÚV styðjast við ómarktæka könnun til að sýna fylgi Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi minna en það í raun og veru er að mati Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns. Þetta kemur fram á heimasíðu Kristins.

„Fjölmiðlarnir tveir verða að svara því hvers vegna þeir gera úr þessu frétt án nokkurs áreiðanleika," sagði Kristinn H. Gunnarsson í samtali við Vísi. „Þeir eiga að vita að kjördæmaniðurbrotin könnun er ómarktæk."

Á heimasíðu sinni gagnrýnir Kristinn þá fullyrðingu Morgunblaðsins og RÚV að fylgi frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi sé aðeins um 5 prósent. Bendir Kristinn á að sú könnun sem hér er stuðst við sé könnun Capacent Gallup fyrir landið allt og úrtakið í Norðvesturkjördæmi hafi aðeins verið 60 manns.

Kristinn vísar á síðu sinni til tveggja annarra kannana sem gerðar voru sérstaklega í kjördæminu. Annars vegar könnun Stöðvar 2 og hins vegar könnun RÚV. Í þeim könnunum hafi úrtakið verið mun stærri eða allt að 970 manns. Þar mældist Frjálslyndi flokkurinn fyrst með 10 prósent fylgi í kjördæminu og síðan 13 prósent. Að mati Kristins eru þetta mun marktækari kannanir sem sýni mikla uppsveiflu í fylgi Frjálslynda flokksins.

Kristinn segir ennfremur á heimasíðu sinni að fjölmiðlarnir tveir hafi orðið uppvísir að óvönduðum vinnubrögðum og þeir eigi að hafa burði og getu til að sinna hlutverki sínu betur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×