Innlent

Ríkisstjórnin heldur velli

Ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Vinstri - grænir tapa fylgi og fara niður fyrir Samfylkingu. Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka við sig. Könnunin var gerð í gær þegar landsfundir Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru í fullum gangi.

Tæplega 17 prósent hyggjast kjósa Vinstri - græna en rösk 22 prósent Samfylkingu. Það er alger viðsnúningur frá síðustu könnun Gallup sem birtist á föstudaginn. Þar voru Vinstri - grænir komnir í tuttugu og fimm prósenta fylgi og nærri sjö prósent skildu fylkingarnar að, Vinstri - grænum í vil.

Þá eykur Sjálfstæðisflokkurinn líka fylgi sitt og fer upp í rúmlega 43 prósent en fékk 37 prósent í Gallupkönnuninni. Fylgisaukningin er mest hjá konum á höfuðborgarsvæðinu. Tæp níu prósent segjast myndu kjósa Framóknarflokkinn nú sem myndi þýða fimm menn á þing en ekki tólf eins og þeir fengu í síðustu kosningum.

Fylgi Frjálslynda flokksins mælist nú tæplega sex prósent en nýju hreyfingarnar tvær eru með hverfandi fylgi. Íslandshreyfingin fær rúmlega tveggja prósenta fylgi en innan við eitt prósent segjast styðja Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja. Þau atkvæði myndu falla dauð.

Samkvæmt þessu fengi kaffibandalagið, Vinstri - grænir, Samfylking og Frjálslyndir, 29 þingmenn kjörna en núverandi ríkisstjórn fengi 34 þingmenn eða fimm manna meirihluta. Ríkisstjórnin væri því ekki fallin. Tæplega þriðjungur kjósenda hefur enn ekki gert upp hug sinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×