Innlent

Óeinkennisklæddir lögreglumenn á meðal viðskiptavina

Óeinkennisklæddir lögreglumenn verða innan um viðskiptavini Kringlunnar eftir páska. Þá hefst átak gegn búðahnupli sem öryggisgæsla hússins stendur að ásamt lögreglu. Um helmingur íslenskra búðaþjófa í Kringlunni eru krakkar að stela sér nammi.

Miklar sögur hafa gengið um að útlendingar, einkum frá Póllandi og Eystrasaltslöndunum, fari um Kringluna í flokkum og steli skipulega úr verslunum.

Þegar rýnt er í tölur sem fréttastofa hefur undir höndum er þetta ekki rétt. Þær sýna að útlendingum sem eru gómaðir við hnupl í Kringlunni hefur vissulega fjölgað - enda hefur jú bæði ferðamönnum og fólki sem kemur hingað til að stunda vinnu fjölgað. En Íslendingarnir sem eru staðnir að verki í Kringlunni eru mun fleiri. Af fimmtíu og þremur málum fyrstu þrjá mánuði ársins voru 32 íslendingar teknir en 23 útlendingar. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2006 voru útlendingar aðeins fimm af 27 teknum og fjórir af 58 árið 2005.

Þegar við héldum á fund Magnúsar Pálssonar, öryggisstjóra Kringlunnar í dag, komu tveir lögreglumenn aðvífandi til að ræða við ungling sem var staðinn að því að stela sér sælgæti. Magnús segir um helming íslenskra Kringluþjófa vera einmitt krakka að hnupla sælgæti. Þjófarnir séu hins vegar af öllum stærðum og gerðum og sú elsta sem var gómuð var 85 ára gömul. Til að sporna við þessu verður herferð gegn hnupli eftir páska.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×