Innlent

Straumurinn liggur vestur um páskana

MYND/Valgarður

Straumurinn liggur vestur um páskahelgina, samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands þar sem hátíðin Aldrei fór ég suður virðist ætla að slá öll aðsóknarmet.

Fjórum vélum verður flogið vestur í dag, aðrar fjórar fara á morgun og þrjár á föstudag sem eru tvöfalt fleiri ferðir en alla jafna.

Einnig hefur verið bætt við vélum á flugleiðunum til Egilsstaða og Akureyrar um helgina og er allt að fyllast. Til dæmis er fullt í allar vélar til Ísafjarðar og Akureyrar á föstudag. Ætla má að Flugfélag íslands ferji fleiri en 6000 manns um páskahelgina.

En það fara ekki allir fljúgandi og vill Slysavarnafélagið Landsbjörg vekja athygli á nokkrum góðum ferðareglum sem rétt er að hafa í huga áður en lagt er af stað.

Sú fyrsta er að fylgjast með veðurspá, fara yfir hjólbarðana og hreinsa þá. Stilla aksturhraða miðað við aðstæður, muna að akstur og áfengi fer ekki saman, hafa beltin spennt og tryggja öryggi barnanna.

Það sama á við ef ferðast er um hálendið, auk þess sem fólki er bent á að gera ferðaáætlun og skilja hana eftir hjá aðstandendum og kynna sér vel það svæði sem ferðast á um. Þá er vert að hafa í huga að víða er mikið er af krapa þessa dagana og margir hafa lent í vandræðum vegna hans.

Allur búnaður þarf líka að vera í góðu standi, hlífðarfatnaður, farartæki og fjarskiptatæki. Landsbjörg minnir einnig á að betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×