Innlent

Icelandair sektað um 190 milljónir fyrir skaðlega undirverðlagningu

MYND/Anton Brink

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Icelandair um 190 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína í áætlunarflugi á flugleiðunum milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar annars vegar og Keflavíkur og London hins vegar. Eftir því sem fram kemur í úrskurði eftirlitsins átti brotið sér stað á árinu 2004 þegar Icelandair bauð netfargjöld, svokallaða Netsmelli að upphæð 16.900 kr., í miklu magni til umræddra áfangastaða á verði sem ekki stóð undir kostnaði.

Um er að ræða skaðlega undirverðlagningu í skilningi samkeppnislaga. Icelandair bauð umrædd ólögmæt netfargjöld u.þ.b. einu ári eftir að Iceland Express hóf áætlunarflug á milli umræddra áfangastaða í samkeppni við Icelandair. Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni gert Icelandair að greiða 190 milljónir króna sekt í ríkissjóð.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins má rekja til þess að snemma ársins 2003 hóf lágfargjaldafélagið Iceland Express samkeppni við Icelandair í flugi á flugleiðum milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar og á milli Keflavíkur og London. Icelandair brást við með því að bjóða mun lægri fargjöld en áður höfðu verið í boði hjá félaginu á umræddum tveimur flugleiðum, svokallaða Vorsmelli að upphæð 14.900 kr. Iceland Express kvartaði við samkeppnisyfirvöld vegna Vorsmella Icelandair sem væru boðnir til að koma í veg fyrir að félagið næði fótfestu á markaðnum.

Samkeppnisráð og síðar áfrýjunarnefnd samkeppnismála komust að þeirri niðurstöðu á árinu 2003 að umrædd fargjöld hefðu falið í sér skaðlega undirverðlagningu sem hefði verið misnotkun Icelandair á markaðsráðandi stöðu og brot á samkeppnislögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×