Lífið

Vinstri grænir stæla Zero auglýsingar

Vinstri grænir stæla auglýsingaherferð fyrir Coca-cola Zero á nýjum barmmerkjum sínum.
Vinstri grænir stæla auglýsingaherferð fyrir Coca-cola Zero á nýjum barmmerkjum sínum.

Stjórnmálaflokkarnir beita ýmsum brögðum í baráttunni um atkvæðin, og Vinstri grænir eru þar engin undantekning. Á nýjum barmmerkjum úr herbúðum þeirra má sjá slagorðið „Af hverju ekki ríkisstjórn með ZERO Framsókn?". Slagorðið er stæling á auglýsingaherferð Vífilfells fyrir gosdrykkinn Coca-cola Zero, sem hefur vakið mikla athygli á undanförnum vikum.

 

 

Auður Lilja Erlingsdóttir hefur ekki áhyggjur af viðbrögðum Vífilfells.

Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna, hafði þó ekki áhyggjur af því að Vífilfell yrði illa við stælinguna. „Ég held þeir geri nú ekkert veður út af þessu," sagði hún. „Okkur datt þetta eiginlega í hug af því að okkur fannst þessi auglýsingaherferð svo hrikalega hallærisleg," sagði Auður. „Við athuguðum hvað við gætum búið til svona hallærislegt í pólitíkinni," bætti hún við. Sem stendur eru um 200 merki í umferð, og segir Auður mögulegt að fleiri verði framleidd. „Við ætlum hugsanlega að búa til fleiri, eins og „Zero Sjálfstæðisflokkur", til dæmis," sagði hún.

Vífilfell er þó ekki alsátt við að vera dregið inn í kosningabaráttuna. „Þau nota þarna sömu liti og eru í vörumerkinu, og orðatiltækið sem er í vörumerkinu, svo þau eru að nýta sér ansi góðan part af auglýsingunum okkar," sagði Haukur Sörli Sigurvinsson, vörumerkjastjóri Coca-Cola hjá Vífilfelli. „Við viljum náttúrlega koma á framfæri að þetta sé ekki tengt herferðinni á einn eða neinn hátt," bætti hann við. „Við erum ekki að blanda okkur í pólitík, höfum aldrei gert og munum aldrei gera," sagði Haukur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×