Viðskipti innlent

Björgólfur hótar að flytja Straum úr landi

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Mynd/E.Ól.

Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka, gagnrýndi íslensk stjórnvöld í aðalfundi Straums í dag og sagðist hóta að flytja bankann úr landi vegna aðgerða stjórnvalda, sem hafi fyrirvaralaust breytt og þrengt reglur varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í erlendri mynt.

Björgólfur sagði allar ríkisstjórnir frá 1991 hafa stefnt að auknu frelsi í viðskiptum og aukinni þátttöku í alþjóðaviðskiptum til að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á alþjóðavettvangi.

Hann vísaði til skýrslu forsætisráðherra um hvernig koma mætti hér á fót alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Skipti miklu að lög og reglur sættu ekki fyrirvara um grundvallarbreytingar. „Því skýtur skökku við að fjármálaráðherra skuli í febrúar, eða eingöngu þremur mánuðum síðar, fyrirvaralaust breyta og þrengja reglur varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í erlendri mynt og setja þeim skilyrði sem erfitt getur reynst að uppfylla," sagði hann

Björgólfur sagði Ísland góðan stað til að byggja upp öflugan fjárfestingarbanka en að slíkar fyrirvaralausar breytingar knýðu fyrirtæki á borð við Straum Burðarás að kanna möguleika á að færa félagið til annars lands. Til greina komi bæði að flytja bankann til Bretlands eða Írlands en þar sé 12,5 prósenta tekjuskattur til 10 ára að lágmarki.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×