Innlent

Peningastefnan virkar ekki

Ólafur Ísleifsson. Ólafur, sem er lektor við Háskólann í Reykjavík, hvetur til fordómalauss samanburðar á evru og krónu.
Ólafur Ísleifsson. Ólafur, sem er lektor við Háskólann í Reykjavík, hvetur til fordómalauss samanburðar á evru og krónu. MYND/GVA

Heldur hallaði á krónuna á málþingi sem nemendafélag viðskiptafræðinema við Háskólann í Reykjavík boðaði til í hádeginu í gær undir yfirskriftinni „Evran eða krónan“.

Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, hvatti til fordómalausrar umræðu um gengismál hér og kallaði eftir hlutlausri úttekt þar sem metinn yrði kostnaður við að taka upp evru og borinn saman við kostnað sem því fylgdi að búa við núverandi kerfi áfram. Hann benti á að verðbólgumarkmið með fljótandi gengi sem hér var tekið upp árið 2001 hafi í raun verið „þvingaður leikur“ og mætti kalla tilraun þar sem slíkt hafi ekki verið reynt í jafnlitlu hagkerfi áður. „Og árangurinn liggur fyrir,“ segir hann. „Háir vextir, mikill vaxtamunur við útlönd, óstöðugleiki í gengi krónunnar, óviðunandi viðskiptahalli, hættumerki á vettvangi fjármálastöðugleika.“ Þarna segir hann kominn aðdraganda þeirra efasemda sem vart verði víðs vegar í þjóðfélaginu um ágæti núverandi fyrirkomulags.

Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans, benti á að gengi evrunnar ætti líklega eftir að lækka og það hentaði ekki ríkjum með mikinn hagvöxt líkt og hér væri. Aðalsteinn Leifsson, lektor við HR, taldi ráð að huga að Evrópusambandsaðild og Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, taldi rétt að horfa á aðra möguleika en krónuna þar sem peningastefnan sem hér væri rekin skilaði ekki því sem vonast hafði verið til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×