Innlent

Framsókn aldrei minni

Eftir að hafa mælst með rúmlega 21 prósents fylgi í síðustu könnun Fréttablaðsins mælist Samfylkingin nú með 27,9 prósenta fylgi. Stuðningur við flokkinn eykst því um tæp sjö prósentustig á milli kannana. Samkvæmt því myndi flokkurinn fá átján þingmenn kjörna, tveimur færri en í síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk 30,9 prósent atkvæða.

Mest er fylgið meðal kvenna, en 30,9 prósent þeirra kvenna sem gáfu upp hvaða flokk þær myndu kjósa sögðust myndu kjósa Samfylkingu, en 25,5 prósent karla. Þá segjast 26,2 prósent íbúa landsbyggðarinnar sem afstöðu tóku myndu kjósa flokkinn, en 28,9 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Vinstri græn bæta einnig nokkuð við sig frá síðustu könnun blaðsins, eða 4,3 prósentustigum. Nú segjast 23,7 prósent þeirra sem afstöðu tóku myndu kjósa Vinstri græn og myndi flokkurinn samkvæmt því fá fimmtán þingmenn kjörna. Þetta þýðir að möguleiki er á tveggja flokka ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með 33 þingmönnum af 63.

Í síðustu þingkosningum hlutu Vinstri græn 8,8 prósent atkvæða og fimm þingmenn. Miðað við þessa skoðanakönnun myndi flokkurinn því þrefalda stærð sína, eða bæta við sig tíu þingmönnum.

Mest er fylgi Vinstri grænna meðal kvenna; 27,7 prósent þeirra sem afstöðu tóku sögðust myndu kjósa flokkinn en 20,6 prósent karla. Þá sögðust 25,9 prósent kjósenda á höfuðborgarsvæðinu myndu kjósa Vinstri græn, en 20,3 prósent íbúa á landsbyggðinni.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur aldrei mælst minni í skoðanakönnunum Fréttablaðsins og segjast nú 3,9 prósent þeirra sem afstöðu tóku myndu kjósa flokkinn. Samkvæmt því myndi Framsóknarflokkurinn fá tvo menn kjörna. Líklegast yrði að þeir tveir kæmu frá landsbyggðarkjördæmum, því 7,6 prósent íbúa landsbyggðarinnar sem tóku afstöðu sögðust myndu kjósa Framsóknarflokkinn, en einungis 1,5 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Því minnkar stuðningur við flokkinn á höfuðborgarsvæðinu um 5,2 prósentustig frá síðustu könnun blaðsins. Þá segjast 4,2 prósent kvenna myndu kjósa Framsóknarflokkinn og 3,6 prósent karla.

17,7 prósent kusu flokkinn í síðustu alþingiskosningum og fékk flokkurinn þá tólf þingmenn kjörna. Miðað við þessa könnun myndi flokkurinn þá missa tíu þingmenn.

Þá er fylgi Sjálfstæðisflokksins nokkuð minna en hefur verið í skoðanakönnunum og segjast nú 36,8 prósent myndu kjósa flokkinn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mælst minna í könnunum Fréttablaðsins síðan í maí 2005. 42,5 prósent karla segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sem er svipað og í síðustu könnun blaðsins. Hins vegar segjast nú 29,3 prósent kvenna myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sem er 7,2 prósentustigum minna en í síðustu könnun blaðsins. Fylgi flokkins er svipað á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu segjast 37,2 prósent þeirra sem afstöðu tóku myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en 36,0 prósent íbúa landsbyggðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 33,7 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum og fékk 22 þingmenn kjörna. Flokkurinn bætir því við sig tveimur þingmönnum á milli kosninga.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarinnar er samkvæmt þessu 40,7 prósent og hefur ekki verið minna síðan í maí 2004. Flokkarnir tveir fengju 26 þingmenn kjörna og því myndi ríkisstjórnin ekki halda velli.

Fylgi Frjálslynda flokksins dalar aðeins frá því sem verið hefur í könnunum blaðsins. Nú segjast 7,3 prósent þeirra sem afstöðu tóku myndu kjósa Frjálslynda, en í síðustu könnun sögðust 10,0 prósent myndu kjósa flokkinn. Um 9,9 prósent íbúa á landsbyggðinni, segjast myndu kjósa flokkinn, en 5,6 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þá segjast 7,7 prósent karla myndu kjósa Frjálslynda, en 6,8 prósent kvenna.

Frjálsyndi flokurinn hlaut fjóra þingmenn í síðustu kosningum með 8,8 prósent atkvæða. Flokkurinn myndi því ekki bæta við sig þingmanni, en eftir að einn yfirgaf flokkinn og tveir bættust við, myndu Frjálslyndir tapa þingmanni miðað við það sem nú er.

Hringt var í 800 kjósendur laugardaginn 10. febrúar og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var „Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga nú?“. 54,8 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×