Innlent

Tímaspursmál hvenær ljósabekkir verða bannaðir

Tímaspursmál er talið hvenær öll notkun ljósabekkja á landinu verður bönnuð, segir læknir. Hið opinbera vinnur nú markvisst að því að útrýma ljósabekkjum í húsnæði sveitarfélaga.

Á síðasta fundi íþróttaráðs Akureyrarbæjar var tekið fyrir erindi frá Braga Sigurðssyni, formanni læknaráðs Heilsugæslunnar á Akureyri þar sem skorað var á íþróttráð Akureyrar að fjarlægja alla ljósabekki úr þeim mannvirkjum, sem ráðið hefur tilsjón með. Íþróttaráð varð við þessu og verður rekstri ljósabekkjanna hætt "við fyrsta tækifæri" eins og segir í bókun ráðsins.

Notkun ljósabekkja er hættuleg húðinni og getur valdið krabbameini, segir Bragi, og vitnar í rannsóknir því til stuðnings. Hann telur aðspurður aðeins tímaspursmál hvenær öll notkun á ljósabekkjum verður bönnuð. Það sé þangað til frumskylda hins opinbera að ganga á undan með góðu fordæmi og banna rekstur ljósabekkja á stöðum sem ætlað er að auka heilbrigði landsmanna eins og í íþróttahúsum og sundlaugum. Braga er ekki kunnugt um að önnur sveitarfélög úti á landi hafi tekið þetta skref en víða úti á landi hafa verið starfræktir ljósabekkir á vegum sveitarfélaga svo sem í sundlaugum. Reykjavíkurborg hefur hins vegar látið fjarlægja alla ljósabekki úr húsnæði borgarinnar.

Gísli Kristinn Lórenzson, forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar, segir að afnám ljósabekkjanna þýði tekjuskerðingu og kalli á nýja rekstraráætlun. Bekkirnir eru í eigu einkaaðila en sundlaugin hefur fengið hlutfallstekjur af innkomu. Það kostar 500-600 krónur að láta geisla sig í bekkjunum og samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa tekjur ljósabaðanna numið milljónum króna á ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×