Innlent

Segja skólabræður sína hafa rænt sér

Hópur unglingsstúlkna segir skólabræður sína hafa rænt sér á aðfaranótt föstudags. Öll ungmennin stunda nám í framhaldsskólanum á Laugum. Lögreglan segir málið litið alvarlegum augum enda virðast stúlkurnar hafa verið beittar valdi. Þá má búast við kæru vegna kynferðisbrots.

Málið virðist hafa byrjað sem hrekkur milli tveggja fylkinga í skólanum, annars vegar stúlkna og hins vegar drengja. Stúlkurnar komu þannig fyrir þorskhausum í herbergjum piltanna en þeir svöruðu með öfgafullum hætti þannig að allt fór úr böndunum.

Krakkarnir sem um ræðir eru frá 15 ára aldri og upp í tvítugt og eru öll nemendur Framhaldsskólans á Laugum. Eftir að hafa rænt þeim af heimavistinni fóru drengirnir með stúlkurnar í hús skammt frá Laugaskóla og leikur grunur á að þar hafi verið káfað á þeim eða blygðunarsemi þeirra særð með einhverjum hætti.

Hermt er er ein stúlknanna hafi þurft að dúsa í farangursgeymslu bifreiðar og mun að minnsta kosti ein þeirra nokkuð marin. Þær voru í þunnum klæðum er þeim var rænt og máttu þola að hellt væri vatni yfir þær.

Búið er að gera barnaverndaryfirvöldum viðvart vegna málsins og hefur lögreglan á Húsavík yfirheyrt hátt í 10 manns vegna málsins.

Skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, Valgerður Gunnarsdóttir, sagði í símtali við Stöð 2 nú undir kvöld að hún teldi málið mjög alvarlegt. Hún gæti að sinni ekki geta tjáð sig nánar um viðbrögð skólans eða viðurlög, en séð yrði til þess að það myndi ekki endurtaka sig að hrekkir gengju út í öfgar með þessum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×