Erlent

300 handteknir í Kaupmannahöfn

Á þriðja hundrað manns voru handtekin þegar til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu í Kaupmannahöfn í gærkvöld. Grjóti og flöskum var kastað að lögreglu sem svaraði með því að skjóta táragasi á mannfjöldann.

Upptök mótmælanna má rekja til dóms Eystri-Landsréttar í vikunni um að rýma beri félagsmiðstöð sem borgaryfirvöld seldu kristnu trúfélagi fyrir nokkrum árum. Hópur róttæklinga hefur hafst þar við frá árinu 1982 og var ekki á þeim buxunum að yfirgefa húsið.

Frá því dómurinn var kveðinn upp hafa friðsöm mótmæli farið fram en í gærkvöld sauð hins vegar upp úr. Þá voru um þúsund manns samankomnir á Nørrebro í miðborginni. Mönnum ber ekki saman um hver upptökin að óeirðunum voru, lögregla segir að mótmælendur hafi byrjað að kasta að sér grjóti, flöskum, flugeldum og öðru lauslegu og því hafi hún ákveðið að láta til skarar skríða.

Dagblaðið Politiken hefur hins vegar eftir mótmælendunum að lögreglan hafi borið ábyrgð á því hvernig fór. Hver sem ber ábyrgðina eru allir sammála um að heiftarleg átök brutust út þar sem táragasi var skotið inn í mannþröngina. Talsmaður lögreglunnar segir langt síðan til slíkra óláta hafi komið í höfuðborginni, raunar hafi svæðið helst líkst vígvelli.

Um síðir tókst laganna vörðum með aðstoð brynvarinna ökutækja að skipta æstum múgnum upp í smærri fylkingar og þegar yfir lauk höfðu tæplega þrjú hundruð manns verið færðir í fangageymslur. Fjórir lögreglumenn hlutu sár í átökunum og sömuleiðis nokkrir mótmælendanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×