Innlent

Segir ákæruna vonbrigði

Geir Magnússon, fyrrverandi forstjóri Essó, segir það hafa verið sér mikil vonbrigði að hafa verið ákærður vegna olíumálsins. Honum, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og núverandi forstjóra Olís voru birtar ákærur í gær.

Geir Magnússon, fyrrverandi forstjóri Essó, segist ekki hafa átt von á ákæru eftir allan þennan tíma sem hann segir hafa verið mjög erfiðan fyrir sig og fjölskyldu sína. Til marks um hve langur tíminn er segir hann lögfræðinginn sem hann hafi verið með í upphafi vera í sínu þriðja starfi síðan. Erfitt hafi verið að sitja undir ásökunum og umfjöllun um málið í fimm ár án þess fá að svara fyrir sig. Geir fagnar því þó að aðrir starfsmenn olíufélaganna, sem höfðu stöðu sakbornings, verði ekki ákærðir og segir það hljóta að vera léttir fyrir þá. Ekki náðist í þá Einar Benediktsson núverandi forstjóra Olís og Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóra Skeljungs.

Gísli Baldur Garðarsson, lömaður og stjórnarformaður Olís, sagði í Íslandi í dag í gærkvöldi að hann teldi ákæru ríkissaksóknara tilraunastarfsemi sem ætti ekki heima í réttarríki. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari hjá ríkissaksóknara segir ákæruna ekkert með tilraunastarfsemi að gera heldur sé embættið að fylgja lagaskyldu sinni að ákæra vegna brota þar sem taldar eru meiri líkur en minni á sakfellingu.

Sigurður Líndal lagaprófessor telur ekki rétt að segja ákæruna tilraunastarfsemi þó ágreiningur sé á milli lögspekinga um hvort ákæra megi einstaklinga fyrir brotin, dómstólar muni dæma um það.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×