Handbolti

Ársþing HSÍ: Áfram möguleiki á 14 liðum í efstu deild kvenna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Í dag fór fram 59. ársþing HSÍ. Fáar breytingar voru gerðar á lögum sambandsins á ársþinginu samkvæmt fréttatilkynningu frá HSÍ.

Helstu lagabreytingar eru þær að ef 14 lið skrá sig leiks í kvennaflokki verður spilað í einni deild en ekki tveimur eins og samþykkt var á síðasta ársþingi.

Þá var samþykkt tillaga um að leyfa félögum að efna til svokallaðra venslaliða. Venslalið mega ekki spila í sömu deild en þau geta haft rýmri félagaskiptareglur sín á milli.

Von ársþingsins er sú að þetta muni fjölga liðum í 1. deild karla og leiði til þess að 12 lið spili í efstu deild tímabilið 2017/2018.

Velta HSÍ á árinu var 196.242.411 kr., hagnaður ársins 911.205 kr. og eigið fé sambandsins er jákvætt um 7.403.926 kr.

Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður HSÍ og þau Arnar Þorkelsson, Guðjón L. Sigurðsson, Guðríður Guðjónsdóttir og Jakob Sigurðsson voru kosin í stjórn sambandsins. Einnig var kosið um þrjá varamenn til eins árs en það voru þau Gunnar Gíslason, Hannes Karlsson og Magnús Karl Daníelsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×