Handbolti

Aron með þrjár neglur í stórsigri Kiel | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron var flottur í kvöld.
Aron var flottur í kvöld. Vísir/Getty
Aron Pálmarsson skoraði þrjú glæsileg mörk þegar Kiel hafði betur gegn Hamburg, 29-19, í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Sigurinn var öruggur eins og tölurnar bera með sér en mörk Alfreðs má sjá í myndböndunum hér fyrir neðan.

Kiel, sem Alfreð Gíslason þjálfar, er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 34 stig og er með tveggja stiga forystu á Rhein-Neckar Löwen, sem á þó leik til góða.

Sjá einnig: Frábær viðbrögð Alfreðs við glæsimarki Arons

Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, vann loksins sigur í deildinni eftir fjóra tapleiki í röð. Refirnir frá þýsku höfuðborginni höfðu tapað öllum leikjum sínum í desember en höfðu betur gegn Göppingen á heimavelli í kvöld, 24-22.

Göppingen var þó skrefi framar framan af leiknum en Füchse Berlin jafnaði metin í stöðunni 20-20 þegar níu mínútur voru til leiksloka og tóku þó af skarið.

Magdeburg, lið Geirs Sveinssonar, vann Bergischer HC á heimavelli, 38-32. Björgvin Páll Gústavsson varði fimm skot í marki síðarnefnda liðsins en Arnór Gunnarsson var markahæsti leikmaður Bergischer HC með níu mörk.

Hannover-Burgdorf vann svo Bietigheim, 28-24, á útivelli. Rúnar Kárason var ekki á meðal markaskorara liðsins að þessu sinni.

Magdeburg er í fjórða sæti deildarinnar með 29 stig, Füchse Berlin í því níunda með 20 og Hannover-Burgdorf í ellefta sæti með nítján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×