Fótbolti

Aron klökknaði ekki enda grjótharður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason verður á sínum stað í vörninni.
Kári Árnason verður á sínum stað í vörninni. fréttablaðið/daníel
Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins, hefur séð flotta takta til leikmanna Kasakstans á myndböndum í undirbúningi leiksins.

„Þetta er algjör lykilleikur og við vitum alveg hversu góðir þeir eru. Það er ekkert vanmat eða eitthvað svoleiðis þótt þeir séu neðar en við á styrkleikalistanum. Við höfum séð nóg af klippum með þeim og þar eru þeir að sýna fantatakta. Við höfum líka rennt yfir hvern og einn leikmann og þetta eru hörkuleikmenn,“ sagði Kári.

Menn hafa rætt nokkuð um hættuna í föstum leikatriðum. „Án þess að gefa eitthvað mikið upp hvað við erum að leggja áherslu á þá gefur það augaleið að þeir eru búnir að skora öll sín mörk úr föstum leikatriðum,“ segir Kári.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, varð faðir í fyrsta sinn skömmu eftir að hann kom út til Kasakstans.

„Það eru allir mjög ánægðir fyrir hönd Arons og það eru allir líka mjög ánægðir með að hann sé hérna. Við áttum okkur á því að hann er fórna heilmiklu fyrir að vera hérna með okkur. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið og við erum þakklátir fyrir það,“ segir Kári en Aron fékk söng og flotta tertu frá liðsfélögunum og starfsmönnum KSÍ í fyrrakvöld. „Hann klökknaði ekki yfir þessu enda grjótharður,“ sagði Kári léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×