Fótbolti

Aron Einar: Er víkingaklappið ekki orðið svolítið þreytt?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ef Ísland vinnur Finnland á Laugardalsvelli á morgun verða að teljast litlar líkur á því að landsliðsfyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, muni leiða víkingaklapp eins og hann gerði á EM.

„Er klappið ekki orðið svolítið þreytt?“ segir fyrirliðinn aðspurður um hvort að klappið yrði tekið í Dalnum.

„Það hefði verið sterkur leikur að gera það fyrir framan enga áhorfendur í Úkraínu ef við hefðum unnið þann leik. Það hefði verið góð kynding,“ sagði Aron léttur.

Strákarnir æfðu í rokinu á Laugardalsvelli í gær en á mánudag flúðu þeir inn í Egilshöll vegna veðurofsans.

„Það er gott að vera kominn heim. Þetta verða tveir erfiðir og mismunandi leikir,“ segir Aron Einar sem mætir tæpur í landsleik eins og svo oft áður.

„Ég er búinn að vera tæpur í svona fjögur ár. Ég tognaði aðeins í kálfanum fyrir hálfum mánuði og átti að vera frá í tvær vikur. Ég hefði getað spilað ef það væri leikur með Cardiff á morgun. Ég fékk að koma en var beðinn um að vera skynsamur. Þú þekkir mig. Ég verð með. Ég kem mér alltaf áfram á hausnum en það verður engin áhætta tekin.“

Aron tók því rólega á æfingu í gær en stefnir á að taka fullan þátt í dag. Hann segist ekkert finna fyrir meiðslunum.

Strákarnir mæta í leikinn gegn Finnum á morgun og það er gerð sú krafa til liðsins að það vinni leikinn.

„Við vitum það og gerum okkur grein fyrir þessari pressu. Við sýndum gegn Úkraínu að það var engin EM-þynnka í okkur,“ segir fyrirliðinn en hann ætlar sér að fá sex punkta úr leikjunum gegn Finnum og Tyrkjum.

„Þetta eru tveir heimaleikir og það er mikilvægt að halda góðum dampi á heimavelli. Við setjum þá pressu á okkur að taka sex punkta í þessum leikjum.“

Sjá má viðtalið við Aron Einar í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×