Handbolti

Arnór fór á kostum í fjórða sigri Bergischer í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Arnór Þór fagnar marki með Bergischer.
Arnór Þór fagnar marki með Bergischer. Mynd/Bergischer
Arnór Þór Gunnarsson átti stórleik í 31-26 sigri Bergischer á Balignen-Weilstetten í þýsku deildinni í handbolta í dag en þetta var fjórði sigurinn í röð hjá Bergischer sem heldur áfram að fjarlægjast fallsætin.

Balingen leiddi í hálfleik 15-13 á heimavelli en leikmenn Bergischer mættu áræðnir til leiks í seinni hálfleik og náðu að snúa leiknum sér í hag. Arnór var ásamt Fabian Gotbrod atkvæðamestur í liði Bergischer með sex mörk.

Lærisveinar Erlings Richardssonar í Füsche Berlin unnu skyldusigur á Lübbecke á útivelli í dag en með sigrinum náðu Berlínarrefirnir smá forskoti á Hannover-Burgdorf í baráttunni um sæti í EHF-bikarnum á næsta ári.

Topplið Flensburg vann öruggan sautján marka sigur á Ólafi Bjarka Ragnarssyni og félögum í Eisenach í dag en sigurinn var aldrei í hættu. Flensburg náði snemma tíu stiga forskoti og hleypti Eisenach aldrei aftur inn í leikinn.

Þá vann Göppingen sannfærandi sigur á Gummersbach 28-21 í lokaleik dagsins en Gunnar Steinn Jónsson komst á blað með eitt mark í leiknum.

Í 2. deildinni í Þýskalandi áttu Anton Rúnarsson og Oddur Grétarsson góðan leik fyrir Emsdetten sem vann 25-24 sigur á Bietigheim-Metterzimmern á heimavelli.

Merten Krings var atkævðamestur fyrir Emsdetten í leiknum með sjö mörk en Anton bætti við sex mörkum og Oddur þremur.

Úrslit dagsins:

Flensburg 35-18 Eisenach

Balingen 26-31 Bergischer

Lubbecke 25-32 Füsche Berlin

Göppingen 28-21 Gummersbach




Fleiri fréttir

Sjá meira


×