Körfubolti

Arkitekt sjö sekúndna sóknarinnar að taka við Houston

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
D'Antoni er mikill sóknargúrú.
D'Antoni er mikill sóknargúrú. vísir/getty
Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að Mike D'Antoni verði næsti þjálfari NBA-liðsins Houston Rockets.

Houston gekk ekki vel í vetur og endaði í 8. sæti Vesturdeildarinnar en liðið vann helming leikja sinna í deildakeppninni. Houston tapaði svo 4-1 fyrir Golden State í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Kevin McHale stýrði Houston í byrjun tímabilsins en var látinn taka pokann sinn í nóvember. J.B. Bickerstaff tók við starfi hans og stýrði liðinu út tímabilið.

D'Antoni, sem er 65 ára, býr yfir mikilli reynslu en Houston verður fimmta liðið sem hann stýrir í NBA.

D'Antoni er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Phoenix Suns sem hann stýrði á árunum 2003-08. Undir stjórn D'Antonis spilaði Phoenix mjög hraðan og skemmtilegan bolta sem skilaði fínum árangri. Phoenix komst tvívegis í úrslit Vesturdeildarinnar á meðan D'Antoni var við stjórnvölinn en liðið tapaði fyrir San Antonio Spurs 2005 og Dallas Mavericks ári seinna.

Eftir að D'Antoni yfirgaf Phoenix stýrði hann New York Knicks og Los Angeles Lakers með misjöfnum árangri. Í vetur var D'Antoni svo aðstoðarþjálfari hjá Philadelphia 76ers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×