Skoðun

Annars konar upplýsing

Nú nýlega var Tryggva Má Sæmundssyni framkvæmdastjóra ÍBV, Elliða Vignissyni bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar og Karli Gauta Hjaltasyni, lögreglustjóra Vestmannaeyjabæjar, send bréf þar sem nokkrar spurningar voru settar fram varðandi fyrirkomulag Þjóðhátíðar í Eyjum. Kveikja þess að bréfin, sem voru undirrituð af 100 karlmönnum, voru skrifuð var sú að bréfriturum blöskraði sú umræða um kynferðisofbeldi sem spratt upp í kringum Þjóðhátíð 2011.

Viðbrögð við þessum bréfum hafa verið lítið annað en jákvæð og er það vonandi til marks um það að kynferðisofbeldi sé tekið alvarlegar en hingað til hefur verið raunin. Hins vegar hafa svör bæjarstjórnar, lögreglustjóra og þjóðhátíðarnefndar verið nokkuð mistæk og lýsa ekki öll miklum vilja til að viðurkenna að nauðganir séu raunverulegt vandamál útihátíða en ekki fórnarkostnaður, né að það sé mjög margt sem við getum gert til að draga úr því. Bæjarstjórnin tók í það minnsta vel í málið, án þess þó að benda á neinar lausnir eða svara spurningum hinna 100 karlmanna efnislega. Karl Gauti Hjaltason var sennilega eini viðtakandi bréfanna sem lét í það skína að leyfi Þjóðhátíðar væri ekki öruggt hvað sem á dyndi eins og hinir tveir aðilarnir virðast ætíð ganga út frá. Hann benti á þær lausnir sem lúta helst að lögreglunni, svo sem varðandi lýsingu og eftirlit á hátíðarsvæðinu og það er, jú, allt til bóta.

Svar aðalstjórnar ÍBV er þó það áhugaverðasta og þar væri gott að staldra við, sérstaklega þar sem í því er komist að kjarna vandamálsins betur en hinir 100 karlmenn hefðu sjálfir getað. Í fyrsta lagi er vert að taka fram að engri af þeim spurningum sem hinir 100 karlmenn sendu frá sér er svarað beint í 1300 orða svari aðalstjórnarinnar, en spurningarnar lutu að því hvort Þjóðhátíð yrði haldin 2012 þrátt fyrir fjölda kynferðisbrota 2011, af hverju ÍBV veitti engum fjármunum í áróður gegn nauðgunum og að síðustu hvort ÍBV myndi greiða þolendum kynferðisofbeldis sem ætti sér stað á Þjóðhátíð svokallaðar sanngirnisbætur.

Sú spurning sem hefði verið gagnlegast að sjá svarað er sú sem lýtur að áróðri gegn nauðgunum. Hinn vandaði fréttamiðill AMX reyndist hundraðmenningunum óvæntur liðsauki þar, en hinir víðfrægu Smáfuglar höfðu haft veður af bréfi karlmannanna og settu fram mjög góða líkingu kynferðisbrota við umferðina, en það dregur fram á mjög ljósan hátt kjarnan í því sem bréfritarar vilja koma til skila. Ímyndum okkur til dæmis að yfir Verslunarmannahelgina yrðu fimm alvarleg umferðarslys í Eyjum: Hver yrðu viðbrögð almennings við því? Væri það ekki talinn harmleikur sem öllu ætti að kappkosta til að koma í veg fyrir að ári? Staðreyndin er nefnilega sú að umferðarþungar helgar á borð við Verslunarmannahelgina hafa einmitt kallað á sérstök viðbrögð Umferðarstofu í samstarfi við lögregluna og ÁTVR. Áróður sem beint er gegn ölvunarakstri og tíundar notkun bílbelta hefur svo sannarlega velt þungu hlassi við að lækka tíðni umferðarslysa á landinu, en hvers vegna kalla fimm nauðgunartilkynningar ekki á sömu viðbrögð? Getur svarið falist í inngrónum viðhorfum gagnvart kynferðisofbeldi og þá sérstaklega því sem beinist að konum? Tölfræðin hefur sýnt að hátt hlutfall þeirra sem lenda í alvarlegum umferðarslysum á síðustu árum eru ungir karlmenn; að sjálfsögðu hefur það kallað á vel útfærðan áróður sem beinist sérstaklega að þeim hópi.

Tölfræðin er líka fyrir hendi í tilfelli kynferðisbrota, en viljinn til að notfæra sér hana er sínu minni. Þegar ÍBV var krafið um svör, símleiðis, um hvort félagið hefði hugsað sér að útbúa kynningarefni eða áróður sem beindist sérstaklega gegn kynferðisofbeldi var undirrituðum bent á að allt slíkt væri á borði þeirra aðila sem sæu um kynningarmál fyrir Þjóðhátíð, sem sagt markaðsdeildar Ölgerðarinnar. Þar höfum við það: Mögulegur áróður gegn kynferðisofbeldi er í höndum áfengissala. Ekkert að því.

Í svarinu er hamrað á því að hátíðin sé „fjölskylduhátíð" og að hátíðin stuðli í raun að fækkun ofbeldisbrota um Verslunarmannahelgi. Því til stuðnings er vísað í nefnd dómsmálaráðuneytisins sem var sett á laggirnar árið 2001 eftir Eldborgarhátíðina sama ár, en þar höfðu ellefu kynferðisbrot verið tilkynnt, og niðurstöður nefndarinnar að aldurstakmark á útihátíðir ætti að vera 16 ár, en ekki 18 ár eins og velt hafði verið upp. Rökin hafi verið þau að einhvers staðar yrðu vondir að vera, og ef börn þurfi að vera sótölvuð einhvers staðar á landinu væri eins gott að hafa þau undir eftirliti á vel skipulagðri hátíð sem hefð sé fyrir. Þannig reynir aðalstjórn ÍBV að færa rök fyrir að Þjóðhátíð þjóni hlutverki nokkurs konar forvarnar með því að úthýsa ekki mökkuðum 16 ára unglingum. Ættum við þá ekki með sömu rökum að leyfa 16 ára aldurstakmark á einn ákveðinn skemmtistað til þess að krakkarnir séu ekki fullir í heimahúsum? Þetta eru þó í besta falli útúrsnúningar, því þessi punktur kemur spurningum hundraðmenninganna ekki við á neinn beinan hátt.

Í lok svars aðalstjórnar ÍBV er því haldið fram að ÍBV sé með hundraðmenningunum í liði; liðinu gegn kynferðisofbeldi. Það er réttast að taka fram að bréfritarar hefðu aldrei látið sér fljúga í hug að aðstandendur og leyfisveitendur Þjóðhátíðar í Eyjum væru að nokkru leyti meðmælendur kynferðisofbeldis. Þvert á móti ganga hundraðmenningarnir út frá því að hið samhenta samfélag í Vestmannaeyjum hafi meiri metnað fyrir þessari sögufrægu hátíð en svo að leyfa því orðspori að myndast að þar fari lítið annað en fylleríshátíð unglinga þar sem ofbeldi er talið viðunandi ástand. Sú þróun er hins vegar í gangi og það að endurtaka í sífellu að hátíðarhelgi þar sem fimm nauðganir eru tilkynntar 2011 og nokkrar glersprengjur eru sprengdar 2010 sé „fjölskylduhátíð," mun ekki snúa henni við. Það er ekki tákn um mikinn „liðsanda" að hrökkva í vörn og stinga höfðinu í sandinn vegna einhvers eyjastolts. Liðið krefst meira af aðstandendum Þjóðhátíðar.

Í heildina er svar aðstandenda Þjóðhátíðar þó ekki illa meint og ekki hægt að skilja það öðruvísi en að ÍBV hafi andstyggð á kynferðisbrotum hvar sem þau eru framin. Þegar öllu er á botninn hvolft er andi svarsins samt sem áður einkennandi fyrir þann misbrest í þjóðfélaginu sem hinir 100 karlmenn hafa höggvið eftir. Hann felst í því að litið er á nauðganir sem lítið annað en leiðan fylgifisk mannamóta sem fátt er hægt að gera í annað en að fjölga gæslumönnum, eftirlitsmyndavélum og ljósastaurum. Þannig er því hafnað að hægt sé að hefja samræðu við líklega ofbeldismenn í formi áróðurs, andlegra forvarna eða opinberra fordæminga, áður en ofbeldið á sér stað.

Að okkar mati er það þó þetta sem vantar helst, það er ekki nóg að lýsa upp dalinn með ljósaperum, heldur er þörf á að upplýsa fólk um þá hættu sem skapast þegar þúsundum manna er smalað saman á lítið svæði og allar hömlur eru leystar. Það þarf upplýsingu heilastöðvanna. Málið snýst ekki bara um að vera með gott viðbragðsteymi, gæslu og skipulag, þó ekkert sé verið að draga úr mikilvægi þess og reynslu Vestmannaeyinga í þeim efnum. Það þarf áróður, það þarf fordæmingar og það þarf samvinnu um að gera lýðum ljóst að nauðganir verða ekki liðnar og eru aldrei ásættanlegur fórnarkostnaður. Það verður ekki gert nema allir aðstandendur taki skýra afstöðu, ekki óskýra eins og raunin er núna. Þær nauðganir sem eiga sér stað um Verslunarmannahelgina eru auðvitað ekki nema dropi í hafið, en Þjóðhátíð væri frábær staður til að byrja á - ef hugur fylgir máli.

Víðir Guðmundsson, leikari og Finnur Guðmundarson Olguson, húsgagnasmíðanemi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×